Cloud Saves og læstar skrár

Firmware update 3.60 kom út fyrir PS3 á fimmtudaginn síðastliðinn og gerði PlayStation Plus meðlimum kleift að hýsa leikjaskrár á netinu. Með öðrum orðum er nú hægt að færa skrár sem hafa að geyma leikja-save, á netið og niðurhala svo eftir þörfum. Þar með er hægt, í fyrsta skiptið frá því að PS3 kom á markað, að færa skrár sem að hingað til hafa verið læstar á ákveðinni tölvu.

„Copy Prohibited Saved Files“ eru, eins og nafnið gefur til kynna skrár sem ekki er hægt að afrita. Að öllum líkindum er ástæðan fyrir tilvist þessara skráa að reyna að koma í veg fyrir misnotkun á trophy kerfinu þar sem að hægt væri að ná sér í skrár sem hafa að geyma kláraða leiki og þar með alla þá trophies sem að fylgja því. Þetta hefur lengi tíðkast með ólæstar skrár og margir útgefendur hafa farið þá leið að læsa skránum svo að ekki sé hægt að misnota verðlaunakerfið. Algengt er að þeir leikir sem að eru læstir hafa að geyma erfiða og/eða tímafreka bikara t.d. vista bæði Demon’s Souls og Bayonetta í læstar skrár. Þetta skapar ákveðið vandamál ef menn eru að skipta um PS3 eða uppfæra harða diskinn. Það hefur ekki verið hægt að færa þessar skrár á milli.

Margir fagna þessum nýja fídus en óvíst er allir geta fært sér þetta í nyt. Eins og allir vita höfum við hér á Íslandi ekki formlegan aðgang að PlayStation netversluninni og höfum við því ekki möguleika á því að spila á íslenskum reikningi og versla af búðinni fyrir þann reikning. Þar með er ekki hægt að vera með Plus áskrift á íslensku PSN ID-i. Allir sem að hugsa sér að kaupa eitthvað af PlayStation Store þurfa því að hafa PSN ID sem að að er með heimilisfang skráð í öðru landi, yfirleitt í Bandaríkjunum eða Bretlandi. Það eru þó ekki allir sem að spila á sama reikning og þeir nota til þess að versla á og það getur verið vandamál ef að menn vilja færa þennan fídus í nyt. „Copy Prohibited Saved Files“ er nefnilega ekki hægt að færa á milli reikninga innan sömu tölvu og þess vegna ekki hægt að afrita þá í skýið. Allar ólæstar skrár er ekkert mál að afrita en til þess að geta fært læstar skrár á milli þarf reikningurinn sem að skráin er skráð á að vera uppfærður í Plus.