PSN: Enn eru notendur úti í kuldanum en þó er til lausn

Þrátt fyrir að PSN sé búið að vera virkt núna í næstum því mánuð eru ekki allir sem að fá að njóta góðs af því. Enn eru margir að kvarta yfir því á spjallborði PSX að þeir komist inn á netsvæðið sem að Sony notar til að endursetja lykilorð fyrir PSN aðganga. Þetta virðist aðeins eiga við reikninga sem að skráðir eru á Íslandi en flestir sem að eru með heimilisfangið skráð í Bretlandi eða Bandaríkjunum virðast vera komnir á PSN án vandræða.

Ég hafði samband við Senu vegna þessa vandamáls en þar er lítið um svör. Það lítur út fyrir að vandamálið sé að netþjónarnir sem að taka við beiðnum um endursetningu lykilorða tengist einhvern veginn PlayStation Store og geti því ekki tekið við beiðnum frá löndum, eins og Íslandi, þar sem að enginn aðgangur að búðinni er fyrir hendi. Einu upplýsingarnar sem að fengust er að verið sé að vinna í þessu.

Svo virðist sem að Sony sé að hunsa vandamálið. Það getur vel verið að þeir séu að gera eitthvað í málinu en allar líkur eru á því að þetta sé ekki ofarlega á dagskrá hjá þeim. Persónulega finnst mér þetta vera skítaástand. Ég er engin sérfræðingur í nettæknimálum en ég trúi því ekki að fyrirtæki eins og Sony, sem hefur yfir gríðarlega miklum mannafla að ráða, geti ekki kippt þessu í lag á skömmum tíma. Ef að þeir geta endurbyggt netkerfi frá grunni sem að styður við 75 miljón manns á rúmum mánuði, ætti þetta að vera lítið mál að kippa í liðinn.

Nú virðist vera komin lausn við vandamálinu. Lausnin felur í sér að notfæra sér holu í öryggiskerfi Sony en ekki er víst að hún virki endalaust. Eflaust verða þeir fljótir að stoppa þetta þegar það uppgvötast. Lausnina má finna hér.

Þrátt fyrir að þetta ætti að duga flestum sem ekki eru enn komnir með aðgang að sínum PSN reikning afsakar það ekki hrikaleg vinnubrögð Sony þegar kemur að því að leysa úr afleiðingum PSN hakksins. Þeir hafa verið hrikalega lélegir með að koma upplýsingum á framfæri og þjónusta við viðskiptavini hefur ekki verið upp á sitt besta. Þetta vandamál er enn meira þegar litið er til minni markaða Sony sem hafa aðgang að PSN en ekki PlayStation búðinni.

Meðhöndlun þessa vandamáls hefði geta verið mun betri að hálfu Senu hér á landi en varla heyrðist orð frá þeim þegar kom að einhvers konar upplýsingum um hvernig notendur ættu að snúa sér í málinu. Nú er óljóst hversu mikið af því var Sony úti að kenna en margt hefði getað farið á betri veg.

One comment

  1. Icelander /

    Hurðu, þetta bara svínvirkaði & takk fyrir að koma þessu hingað á forsíðuna! 🙂

    Gæti svo ekki verið meira sammála pistlahöfundi um ‘meðferðina á litla manninum’ sem við erum að fá frá risanum hérna. Peningar tala & allt annað greinilega látið sitja út í kuldanum!