Grim Fandango Remastered

grimfandangoicon

Framleiðandi: Double Fine
Útgefandi: Double Fine
Útgáfudagur: 27. Janúar 2015

Grim Fandango er einn af þessum klassísku tölvuleikjum sem mun lifa í sögubókunum. Þessi ævintýraleikur sem kom út árið 1998 er talin vera ein mesta gersemi Tim Schafers sem er einmitt konungur ævintýraleikjanna. Hinsvegar er oft erfitt að spila þessa klassísku leiki og nú tæpum 17 árum síðan leikurinn var gefinn út hefur hann nú verið endurútgefinn fyrir PlayStation 4 og PlayStation Vita, stóra spurningin er auðvitað hvort leikurinn sé ennþá jafn góður og spilanlegur í dag og hann var þegar hann kom út.

Þessi PlayStation útgáfa af leiknum er kölluð Grim Fandango Remastered sem er svolítið fyndið enda hefur ekki miklu verið breytt frá upprunalegri útgáfu leiksins. Leikurinn er gerður eins og fyrstu Resident Evil leikirnir og Final Fantasy VII þar sem allir bakgrunnar eru pre-rendered. Það eina sem var endurgert fyrir þessa útgáfu voru persónur leiksins og þeir hlutir sem hægt er að nota. Bakgrunnarnir eru því óbreyttir og alveg eins og árið 1998. Þar sem þeir eru pre-rendered þá voru þeir virkilega flottir árið 1998, í dag eru þeir alveg í lagi en það hefði verið gaman ef þeir hefðu verið teknir í gegn líka. Öll myndbönd (cut-scenes) eru líka algjörlega ósnert og eru því eins og þau voru í gamla daga.

Þó ber að hrósa Double Fine mönnum fyrir það að hægt er að spila leikinn í upprunalegri upplausn eða 4:3 en þeir sem vilja geta breytt yfir í widescreen upplausn sem fyllir skjáinn betur. Einnig er gaman af því að hægt er að velja á milli hvort þú viljir notast við Remastered grafíkina á því sem var breytt eða þá upprunalegu. Með því að smella á R3 er hægt að skipta á milli þessara valmöguleika án þess að stoppa leikinn sem ég persónulega er mjög ánægður með. Með því er einnig mjög auðvelt að sjá hversu lítið af hlutum voru lagfærðir fyrir þessa útgáfu.

comparisonEins og sjá má er ekki mikill munur á upprunalegu útgáfunni og þessari nýju

Til að stjórna Manny, hetju leiksins, eru tvær leiðir í boði. Hægt er að stjórna honum á nýtískulegan hátt þar sem pinninn er notaður útfrá myndavélinni til að fara rétta leið, en einnig er boðið upp á upprunalegu tank-control stílinn þar sem upp þýðir að labba áfram og að ýta til vinstri og hægri snýr Manny. Persónulega er ég vanur upprunalega stílnum og finnst hann virka vel, en þess má geta að Tim Schafer heimtaði að hafa bikar í leiknum fyrir þá sem notast við upprunalegu stillinguna.

Ég vil nú lítið fara yfir sögu leiksins enda er hún gersemi og eitthvað sem þeir sem hafa ekki upplifað leikinn áður eiga að fá að njóta án þess að sagt hafi verið frá hvað gerist. En í stuttu máli þá er hetja leiksins Manuel Calavera, kallaður Manny, en hann er dauður og er því bara beinagrind. Manny lifir í heimi dauðra eða Land of the Dead þar sem allar helstu persónurnar eru beinagrindur, meira að segja dýrin líka! Manny vinnur á ferðaskrifstofu þar sem hann hjálpar nýlátnu fólki að komast leiðar sinnar í heim hinna dauðu. Hinsvegar er ekki allt með feldu á staðnum og það er undir þér komið að hjálpa Manny að komast til botns í málinu. Það sem einkennir leikinn einna mest er húmorinn en leikurinn er mjög fyndinn og er leikurinn gjörsamlega troðfullur af orðagríni.

Talandi um að komast til botns í málinu, eins og allir ævintýraleikir þá snýst leikurinn um að leysa hin ýmsu vandamál. Sum eru tiltölulega auðveld og auðskiljanleg eins og að tala við hinar ýmsu persónur leiksins en ansi mörg vandamál eru ótrúlega flókin og í raun „meika ekkert sens“. Ef þú ert ekki vanur/vön því að spila ævintýraleiki er hætt við því að þú festist á einhverjum stöðum í Grim Fandango. Ég mæli með því að ef þú festist og ert alveg búin/n að missa þolinmæðina að kíkja á netið og finna lausnina enda er sagan það skemmtileg að það væri synd að hætta án þess að klára leikinn. En ekki finna lausnina nema í algjörri neyð enda felst mikið af ánægju leiksins í því að leysa þrautirnar sjálf/ur.

grimfandangoutiUmhverfi leiksins er mjög fjölbreytilegt og flestir staðirnir bjóða uppá skemmtilegar þrautir

Sagan heldur sér algjörlega og er alveg mögnuð, grafíkin gæti verið betri en þó alls ekki eitthvað til að kvarta eitthvað sérstaklega undan. Hljóðið í leiknum er til fyrirmyndar og þá sérstaklega talsetningin sem gefur persónum leiksins mikið líf og dýpt. Persónur leiksins eru flestar mjög eftirminnilegar og oftast er mjög skemmtilegt að ræða við þær og kynnast, yfirleitt alltaf leynast flottir brandarar í setningunum sem fá að fljúga á milli í samtölunum. Hinsvegar er leiðinlegt að segja frá því að leikurinn er ekki alveg nógu vel slípaður, grafík glitches koma fyrir nokkrum sinnum, það getur verið ansi pirrandi að hreyfa Manny þá sérstaklega á þröngum svæðum eða á stöðum þar sem gert er ráð fyrir að maður sé að reyna að fara vissa leið.

Þegar öllu er á botninn hvolft verður að viðurkennast að Grim Fandango Remastered er virkilega góður leikur. Það er leiðinlegt að Double Fine skyldi ekki taka leikinn alveg í gegn eins og maður var að vonast til en það segir samt kannski mikið um hversu mikil gersemi leikurinn er að Double Fine kemst upp með það og leikurinn er samt frábær enn í dag. Það hefði kannski verið fínt að bæta við Hint kerfi fyrir þá sem vilja enda mikið af óútreiknanlegum verkefnum sem þarf að leysa til að spila leikinn í gegn.

Fyrir ykkur sem hafið ekki spilað Grim Fandango þá mæli ég eindregið með þessari útgáfu leiksins, það er ástæða fyrir því af hverju leikurinn er talinn vera sú gersemi sem hann er. Fyrir ykkur sem hafið spilað leikinn og jafnvel oftar en einu sinni þá er samt gaman að kíkja á þessa útgáfu enda er hægt að spila leikinn með commentary frá þeim sem gerðu leikinn sem er eitthvað sem mætti vera algengara í þessum endurútgáfum á leikjum.

grimfandangoherbergiÞú þarft að komast útúr ansi mörgum erfiðum kringumstæðum áður en sagan klárast

Eins og ég segi þá mæli ég sterklega með Grim Fandango Remastered en búið ykkur undir það að hann er kannski ekki alveg fullkominn og auðvelt að festast á nokkrum stöðum í sögunni. Lengd leiksins fer gjörsamlega eftir því hversu vanur/vön þú ert að spila ævintýraleiki og hversu fljótt þú fattar lausnina á þrautum leiksins en ég myndi skjóta á að venjuleg spilun ætti að taka um 12-15 tíma.

Þess má geta að leikurinn er Cross-Buy þannig að ef þú kaupir leikinn þá færð þú hann bæði á PlayStation 4 og PlayStation Vita. Leikurinn styður Cross-Save þannig að það er hægt að flakka á milli vélanna með sama save-ið sem er frábært. Talandi um save, þá er þetta gamall leikur þannig að það er ekkert auto-save. Þú þarft að save-a sjálf/ur en hinsvegar er jákvætt að það er hægt að save-a hvenær sem er í leiknum og halda áfram síðar.

Tvisvar lenti ég í því að leikurinn klikkaði og algjörlega fraus, ég mæli því með því að save-a frekar oft enda gríðarlega pirrandi að þurfa að gera sama partinn aftur þegar slíkt gerist, vonandi að Double Fine menn muni uppfæra leikinn til að laga þennan galla.

Einkunn: 8 af 10 mögulegum

Skrifað af: AgustStefans ©

Ágúst Stefánsson

Öll afritun á texta er stranglega bönnuð nema með leyfi höfundar.