Until Dawn

UntilDawnPEGI

Framleiðandi: Supermassive Games

Útgefandi: Sony Computer Entertainment

Until Dawn er gagnvirk drama- og hrollvekju survival saga sem spannar sögu átta söguhetja en spilari spilar á einhverjum tímapunkti sem hver og ein þeirra. Við framvindu leiksins þurfa spilarar að taka afdrifaríkar ákvarðanir sem hver og ein hefur áhrif og afleiðingar á sögu leiksins og útkomu hans. Markmið leiksins er þó alltaf það sama, að hafa nóttina örlagaríku af.

Supermassive Games byggðu sögusvið leiksins á eins klisjukenndri leikmynd hrollvekja og mögulegt er en saga leiksins á sér öll stað á einni dimmri vetrarnóttu í kofa einum fjarri allri byggð. Til þess að kóróna allt, þá er kofinn ofarlega í snæviþöktu fjalli þar sem skíðalyfta er það eina sem kemur þér upp og niður úr fjallinu.

Það líður ekki að löngu þar til krakkarnir átta sig á því að þau eru ekki ein á fjallinu og fortíðin tekur fljótt að sækja á þau. Söguþráður Until Dawn sem slíkur verður þó ekki reifaður nánar hér svo ekkert verði um spilla (spoilers) enda leikur sem undirritaður mælir með að verði spilaður án þess að vita nokkuð um hvað bíður ykkar.

Until-Dawn

Heimur Until Dawn er alls ekki stór en Supermassive Games hafa augljóslega lagt mikið upp úr því að gera hann sem og allt sem í honum er eins óhugnalegt og á er kosið. Hvert sem þú ákveður að fara þá virðist það alltaf vera algjörlega ömurleg hugmynd. Nóttin er dimm, bústaðurinn er stór og kuldalegur, umhverfið allt er afskekkt fjalllendi reimt af dimmri sögu og hörmungum þar sem ekkert er í næsta nágrenni fyrir utan yfirgefið heilsuhæli og námugöng. Grafík leiksins er til fyrirmyndar en leikurinn keyrir á uppfærðri útgáfu af grafíkvélinni sem færði okkur Killzone: Shadow Fall við útgáfu PS4.

Gagnvirk spilun leiksins má helst líkja við leiki á borð við Heavy Rain og Beyond: Two Souls fyrir þá sem þá spiluðu þó leikurinn sé af örlítið frábrugðinni tegund (genre). Until Dawn spilast í nokkrum leikþáttum þar sem spilari fer með hlutverk allra átta söguhetja leiksins. Söguhetjurnar eru hver staðalímyndin á eftir annarri sem allir ættu að kannast vel við úr fjölda vinsælla hryllingsmynda. Eins og áður sagði hefur hver ákvörðun sem þú tekur sem hver karakter áhrif á framvindu og enda sögunnar. Þá hafa ákvarðanir áhrif á þá persónu og einnig þær sem hún tengist innan leiksins. Sambönd þeirra geta orðið sterkari, veikari, eyðilagst eða blómstrað. Sumar ákvarðanir virðast lítilfjörlegri en aðrar en gætu komið til með að skera úr um hvort einstaklingurinn lifir eða drepist. Velur þú að koma illa fram við náungann? Þér hefnist það jafnvel síðar…

d22223ce512d9d2184a5da1da2d5bd40

Í Until Dawn er úrval frábærra leikara (Hayden Panittier, Rami Malek, Peter Stormare svo eitthvað sé nefnt) sem ásamt góðri grafík gera spilun leiksins að afar ánægjulegri upplifun. Það er í raun ekkert út á þessa hluta leiksins að setja, talsetning, hljóðvinnsla og tónlist leiksins er algjörlega til fyrirmyndar. Þar sem leikurinn bíður hnekki er þegar tekur að líða á síðari hluta sögunnar. Sérstaklega allt sem tengist lækni nokkrum/handahófskenndum karakter sem spilar afar óljósu, jafnvel tilgangslausu hlutverki.

Upplifunin felst öll í sögunni og sagan getur spilast á marga vegu eftir hvaða markmiði spilarar spila leikinn. Ætlarðu að koma öllum lifandi í gegnum nóttina? Viltu njóta þess að sjá alla deyja? Hvað sem þú gerir þá þarf að gæta að öllu sem þú ákveður að gera því ekkert af því verður tekið til baka. Leikþættirnir í Until Dawn eru tíu talsins og þó leikurinn sé auðveldlega spilaður á undir tíu klukkustundum þá er endurspilanlegt gildi hans mikið og útkomur hans margar.

until-dawn-coming-later-2015

Þegar ég lauk fyrstu spilun í gegnum leikinn fór ég samstundis að endurspila ákveðna kafla leiksins (það þarf ekki að taka nýja umferð frá upphafi) þar sem ég mundi eftir ákvörðunum sem komu í bakið á mér síðar. Ég fór jafnvel að leika mér við að athuga hvernig söguhetjur gátu tapað lífi sínu hver af fætur annarri þar sem ég var full duglegur við að bjarga öllum í fyrstu umferð.

until-dawn2

Until Dawn er kannski ekkert meistaraverk en þó þétt og góð skemmtun sem heldur þér við efnið frá upphafi til enda (þó efnið verði einkennilegt á köflum). Fáir leikir hafa haft þann kost að keyra mig aftur í leikinn beint við sögulok af einskærri forvitni. Hverju gæti ég hafa misst af? Hvað hefði gerst hefði ég breytt örlítið til? Margt sem ég valdi að gera þegar valið stóð frammi fyrir mér aftur reyndist mun skemmtilegra en það sem ég gerði í fyrstu. Bjargaðirðu einhverjum sem endaði á að fara í taugarnar á þér? Spilaðu bara kaflann aftur þar sem þú bjargaðir honum og breyttu söguþræðinum samstundis. Það ætti hver sá sem hefur gaman að „survival horror“ leikjum að geta haft nokkuð gaman að þessum.

Grafík: ★★★★★★★★★☆ 

Saga: ★★★★★★★☆☆☆ 

Spilun: ★★★★★★★★☆☆ 

Hljóð: ★★★★★★★★★☆ 

 

Lokaeinkunn: ★★★★★★★★☆☆ 

 

Höfundur: Steini (Grjoti)