Metal Gear Solid V: The Phantom Pain

CUSA_00000_MGS_PP_PS4_Inlay.indd

Framleiðandi:Kojima Productions
Útgefandi: Konami

Útgáfudagur: 01.09.2015
Útgáfa spiluð: PS4
Heimasíða: https://www.konami.com/mgs/metal-gear-solid-v-the-phantom-pain/

Kynning:

Reiði, heift og hefnd, það er einn af kjarnanum í sögu Metal Gear Solid V: The Phantom Pain. Hvað langt þetta þema fer og hvaða afleiðingar það hefur á þig og fólkið í kring er eitthvað sem leikurinn kannar.

Tungumál og hvað það hefur mikið að segja fyrir fólk og þeirra einkenni sem persónu er annar hlutur sem er einn af rauðum þráðum The Phantom Pain, það getur stjórnað lífi okkar og á sama tíma tekið svo mikið í burtu þegar það tekur í burtu. Þessi missir er eins og vofa sem hangir yfir lífi okkar.

Metal Gear Solid serían er vel kunn PlayStation eigendum frá að hún færðist yfir á vélina árið 1998 með útgáfu Metal Gear Solid. Áður höfðu komið út tveir Metal Gear leikir fyrir MSX vélina og síðan slakari útgáfur færðar yfir á NES vél Nintendo.

Hideo Kojima er maðurinn á bakvið seríuna og er mark hans áberandi í gegnum leikina, hann hefur í nokkurn tíma talað um að hann sé að hætta og núna eftir atburði síðustu mánaða og deilu hans við Konami þá er það orðið að veruleika, MGS 5 er síðasti leikurinn sem hann kemur að en líklega ekki síðasti leikurinn í seríunni.

Í stað þess að syrgja að hann muni ekki lengur koma að leikjunum þá er frekar spurning að sökkva sér djúpt í The Phantom Pain og finna út hvort að hann sé flottur endir hjá Kojima eða eitthvað sem hefði geta orðið meira?

pic_z_094_xcpf92

Venom Snake, Miller og Co

Saga:

Fyrir þá sem eru nýjir inn í MGS seríunni þá er sko sannarlega nægu úr að taka og ávallt spurning hvar á að byrja. Fyrir þá sem vilja fara nánar í baksöguna vísa ég í grein eftir mig frá 2008 rétt fyrir útgáfu Metal Gear Solid 4: Guns of the Patriots. Í stuttu máli er hægt að segja að MGS serían sé um Big Boss og „syni“ hans og baráttu þeirra um hvernig heimurinn á að vera. Þetta er mikil einföldun en til að fara djúpt í þetta myndi gera þessa gagnrýni margfallt lengri.

Big Boss er aðal persóna MGS V og brúar þessi leikur að mestu bilið á milli leikjanna sem hann er aðalpersónan í og síðan þeirra sem Solid Snake sonur hans er söguhetjan í.

Saga leiksins gerist árið 1984, 9 árum eftir atburði Metal Gear Solid V: Ground Zeroes leiksins sem kom út í fyrra og var stutt upphitun fyrir aðalviðburðinn. The Phantom Pain byrjar á spítala í Kýpur þar sem að Big Boss hefur legið í dái í 9 löng ár á meðan óvinir hans hafa styrkt sig og hert tökin á heiminum. Hann kemur úr dáinu mínus aðra hendina og líkamann fullan af sprengjubrotum eftir slysið, ásamt hornlaga broti sem stendur uppúr enninu á honum. Leikurinn vísar í hann sem Venom Snake og er V eitthvað sem leikurinn einblýnir talsvert á.

Til að komast aftur í baráttuform og endurbyggja Diamond Dogs herdeild hans þá byrjar hann, Miller og Ocelot að taka að sér hin ýmsu verkefni á stríðshrjáðum svæðum í Afghanistan og Afríku til að safna að sér hermönnum, peningum og vopnum til að berjast við Cipher.

Cipher er í raun Zero úr eldri leikjum sem Big Boss var í, þeir unnu saman í kringum atburði Metal Gear Solid 3: Snake Eater áður en deilur á milli þeirra sundruðu þeim. Zero er með puttana í fyrirtækjum og ríkisstjórnum um allan heim, og notar hann þau til að ná fram vilja sínum.

Hefndinn sem Venom Snake finnur fyrir er eitthvað sem rekur hann áfram í að byggja upp mátt sinn og á sama tíma komast af því hvað Cypher og hinn dularfulli leiðtogi XOF herdeildarinnar, Skullface hefur í hyggju.

pic_z_065_eu3890

Hinn dularfulli Skullface

Það er ekki annað hægt að segja enn að saga leiksins, þegar líður á leikinn getur verið frekar dökk og passar það vel við þemu leiksins. Fyrir þá sem hafa spilað fyrri leiki þá er það pínu sérstakt hvernig mikið af sögu leiksins er sögð. Í stað langra sena eins og í MGS 4 þar sem að fólk starði á skjáinn í nokkurn tíma á meðan leikurinn sagði sögu sína þá er ekki eins mikið af þessum „cut scenes“ í leiknum, miðað við fyrri leiki. Heldur er sagan á kassettum sem Venom Snake fær í gegnum sögu leiksins og með því að hlusta á þær þá er mikið af baksögu leiksins, persóna hans og heimsins gerð betri skil.

Leikurinn byggir mikið formatinu sem MGS: Peace Walker notaðist við á PSP vélinni. Verkefnin sem leikmenn fá eru oft ekki endilega löng eða flókinn og er sagan ekki mikil, annað en „farðu þangað, dreptu þennan, sprengdu þetta upp, bjargaðu þessum.“ Fyrri leikir í voru hnitmiðaðri og höfðu meira skipulag í sögunni og spilun, þessi leikur er að reyna eitthvað nýtt bæði í spilun og sögu og gengur það að mestu upp.

Eitt sem ég vill benda á og það er að það er hægt að klára leikinn og samt ekki sjá alla söguna. Það sem ég meina með því er að leikurinn kemur með „credit“ lista eins og hann sé búinn enn í raun eru ófá verkefni enn eftir sem fylla uppí söguna og án þeirra fær maður ekki alla upplifunina né söguna í heild. Að auki eru mörg af þessum verkefnum og söguköflum með þeim betri í leiknum þó að hraðinn í kafla 2 sé dálítið mikill.

Það er spes að segja það en sem frekar mikill unnandi þessarar seríu þá saknaði ég oft á tíðum þessara löngu kafla þar sem leikurinn tók af þér völdinn og sagði sína, oft brengluðu og sýrðu sögu á meðan þú horfðir á og pældir í bara „WTF?“ aftur og aftur. Það er ekki eins og að The Phantom Pain skorti slíka kafla, þeir eru bara ekki eins settir upp eða jafn stórir.

Í fyrri leikjum er oft pínu skrítnir kaflar og sagan fer á ýmsa vegu, þessi leikur er alveg með slíkt þó kannski ekki alveg eins langt og eldri leikir. Ég viljandi fór ekki langt í söguna í þessum skrifum þar sem að það er best að upplifa hana sjálfur á sinn hátt.

pic_z_025_gi2bjm

Leikurinn tæklar erfið málefni eins og notkun barna í hernaði

Grafík og Hljóð:

Einn af stöðunum sem leikurinn klikkar ekki á neinum sviðum er í grafík og hljóð deildinni. FOX Engine grafíkvélin sem Kojima Productions bjó til og birtist fyrst í MGS: Ground Zeroes er hrikalega flott og keyrir á blússandi 60 fps (römmum á sek) í 1080p upplausn á PlayStation 4. PS3 útgáfan klárlega er ekki eins flott eða keyrir jafn vel. Það er skiljanlegt þar sem að þessi leikur er stór og opinn og er hægt að flakka um allt borðið án þess að verða var við að hann sé að hlaða eða streyma neitt.

Að þvælast um Afghanistan eða landamærasvæði Zaire og Angóla er oft gullfallegt og auðvelt að staldra smá við og dáðst af landslaginu. Það eru þó ekki allir hlutar þessa svæða jafn fallegir enda búnir að þurfa að þola langvarandi stríðsátök.

Það eru dag- og næturhringrás og er hægt að sjá ferðalag sólarinnar með hreyfingu skuggans á hlutum og fólki. Rigningar og sandstormar herja á landið og gerir það skyggni erfitt þegar maður er að þvælast um. Reyndar koma slíkir hlutir oft að góðu og hjálpa til þegar að þú þarft að laumast eitthvað um og nýta þér drunurnar í veðrinu til að hylma yfir skotinu sem þú varst að smella í hausinn á einum verðinum sem hefði annars getað séð þig.

Hægt er að velja tímann sem er byrjað verkefnið og hefur það oft mikið að segja um hvernig fer

Hægt er að velja tímann sem er byrjað verkefnið og hefur það oft mikið að segja um hvernig fer

Nákvæmnin sem hefur verið lögð í þennan stóra heim er oft ótrúlegvað sjá, Kojima hefur lengi verið þekktur fyrir að missa sig í öllum svona hlutum og er það áberandi í gegnum leikinn. Andlit óvinanna og annara í leiknum eru mjög flott og raunveruleg. Hreyfingar þeirra og dýranna eru gríðalega vel gerðar og hjálpa við að draga þig inní heim leiksins.

Þar sem að leikurinn gerist í kringum 1984 þá má finna mikið af tækni og tónlist þessa tíma í heiminum. Snake rúllar um með Sony Walkman spilara og getur fundið hinar ýmsu kassettur í umhverfinu sem bæði innihalda söguparta eða tónlist. Það er síðan hægt að smella á smá tónum og hoppa inní hasarinn eða hlusta á sögu kafla þegar verið er laumast um.

Það var oft gaman og fyndið að smella á smá A-ha, Billy Idol, Europe, The Cure ofl og sitja bara á hestbaki og upplifa smá retro fíling á meðan er farið yfir eyðimörkina í Afghanistan.

Eitt sem ég saknaði þó í leiknum og það var meira af tónlist Harry Gregson-Williams sem hefur unnið með Hideo Kojima að tónlist MGS 2, MG 3 og MGS 4. Hann er framleiðandi að tónlist leiksins en kemur ekki eins mikið að henni og í hinum leikjunum.

Stóri bleiki fíllinn í herberginu er klárlega að David Hayter er ekki rödd Big Boss í þetta sinn og er það í fyrsta skiptið síðan að leikirnir byrjuðu á PlayStation vélinni. Að sjá Snake og heyra ekki röddina hans er frekar svekkjandi, það er líka sérstakt hve lítið Snake sem er nú raddaður af Hollywood leikaranum Kiefer Sutherland talar. Það er ekki fyrr en kafað í kassettur leiksins sem að við fáum að heyra eitthvað að viti af útgáfu Kiefers af Snake.

Raddleikarinn Troy Baker stendur sig vel sem Ocelot, það hvílir mikið á herðum hans þar sem að hans persóna talar langmest í leiknum. Baker er einna þekktastur fyrir að radda Booker DeWitt í Bioshock: Infinite og Delson Rowe í inFamous: Second Son.

pic_z_059_g02kg8

D-Dog vill auðvitað sitja uppí

Spilun:

Það verður því miður að segja að spilun og stjórnun margra eldri MGS leikja var oft pínu flókinn og var eins og maður þurfti nokkra auka putta til að ná að gera allt sem maður vildi. Í gegnum tíðina hefur serían tekið upp nokkra góða siði frá Vestrænum leikjum og er það helst myndarvélar stjórnunin, hreyfingin þín og síðan hvernig skotkaflarnir virkar sem hafa notið einna mest góðs af því. Það fer ekki á milli mála að þessi leikur er sá sem stjórnast best í allri seríunni og auðvelt er að fara úr einu í annað án þess að finnast maður vera með 10 þumla.

Það er hægt að velja stjórnun sem er líkari eldri leikjum og síðan þá sem minnir frekar á stjórnum í Call of Duty leikjunum. Málið er að fáir verða sviknir af hvernig leikurinn stjórnast og geta því notið leiksins og þess sem hann hefur upp á að bjóða.

Það er sko sannarlega af nægu að taka hérna og að segja að leikurinn sé með nóg af efni er ekki nógu sterkt tekið til orða. Þegar ég var „búinn með leikinn“, var ég með um 90 tíma spilaða og samt bara 58% í heild klárað af öllum þeim takmörkum sem er hægt að ná í leiknum. Það eru enn Side-Ops til að takast á við, nokkur erfiðari verkefni sögunnar til að takast á við og svo mörg skúmaskot leiksins sem ég hef ekki enn kannað.

Hægt er að endurspila öll verkefni leiksins hvenær sem er bara með að kalla upp iDroid-inn og velja þau, það eru oft ýmis aukatakmörk sem er hægt að ná sem gefa þér meiri peninga til að nýta aftur á Mother Base.

Hægt er að eyða talsverðum tíma að uppfæra Mother Base

Hægt er að eyða talsverðum tíma að uppfæra Mother Base

Hérna komum við að einu stærsta parti leiksins og eitthvað sem fáir hafa séð sem höfðu ekki spilað Peace Walker á PSP. Big Boss og Co hafa byggt upp herstöðina Mother Base á gömlum olíu borpalli í Seychell eyjunum og gefur það þeim tækifæri á að fara með stuttum fyrirvara á helstu átakasvæðin í kring.

Hægt er að safna peningum með því að vinna hin hin ýmsu verkefni ásamt því að nota Fulton loftbelgs tæknina til að stela vopnum, faratækjum, gámum og hermönnum. Munu leikmenn nota það til að byggja við og styrkja Mother Base stöð þeirra. Óvina hermenn fá líklega gott spjall á MB um hvað er frábært að vera í Diamond Dogs herdeildinni áður en þeir gefa sig. Eitt er flott að áður en þú finnur túlka á borðunum tveimur þá mun Venom Snake ekki skilja hvað sagt er á þeim, svo það er mjög gott þegar að túlkurinn er kominn í hópinn að maður getur skilið samtöl þeirra og nýtt sér til að laumast framhjá þeim eða finna leynda hluti. Hægt er að laumast aftan að óvinum, taka þá hálstaki og yfirheyra og þá munu þeir oft gefa upp staðsetningu, gísla, vopna, annara hermanna ofl sem kemur að góðum notum.

MGS leikirnir hafa lengi snúist um frelsi í spilun og hvort að þú villt laumast um án þess að neinn taki eftir þér eða grípa til vélbyssunnar þegar allt annað bregst. Leikirnir hafa þó lengst af verðlaunað leikmenn mest fyrir að fara huldu höfði og drepa ekki allt kvikt. Ég man alltaf eftir að frændi minn fór eimmit í gegnum MGS 2 án þess að drepa neinn til að fá ennisbandið sem gaf ótakmarkaðar kúlur. Með svona stórum og opnum borðum eru möguleikarnir enn meiri og byrjar spilun leiksins þá fyrst að skína í gegn.

Fínt er að nota sjónaaukann og merkja stöðu hermann áður en er farið inn

Fínt er að nota sjónaaukann og merkja stöðu hermann áður en er farið inn

Ég átti það stundum til að sitja á toppi hæðar og horfa yfir óvina herstöð og finna út hvar allir hermennirnir væru og merkja þá með iDrod-inum og sjá hvort að þeir lumuðu á einhverjum óvæntum glaðningi handa mér. Síðan laumast niður með uppáhalds byssuna og svæfa þá alla og stela með Fulton loftbelgnum ásamt góssinu þeirra. Síðan stundum ef að hlutirnir fór úrskeðis, þeir áttu það oft til, þá var gripið til sprengjuvörpunnar eða vélbyssunnar og byrjað að þynna niður hópinn. Það sem er svo gott við leikinn er að hann opnar fyrir þig þennan stóra „sandkassa“ til að leika þér í og það er þitt sem leikmanns að finna úr hvers konar spilun hentar þínum stíl.

Venom Snake er þó ekki einn á ferðinni, hægt er að vera með nokkra „buddies“ sem geta gert lífið auðveldara. Það er fyrst D-horse sem eins og nafnið gefur til kynna er hraður hestur sem er gott að nota til að fara hratt um borðið. Síðan er það D-dog sem Snake finnur sem hvolp í Afghanistan og Ocelot þjálfar upp fyrir þig. Það er D-droid sem Huey (Pabbi Otagon) hannaði og getur valdið góðum ursla hjá óvinunum. Að lokum er það líklega miklvægasti meðlimur hópsins og það er dularfulla leyniskyttan Quiet.

Það er mjög spes ástæðan við klæðaburði hennar

Það er mjög spes ástæðan við klæðaburði hennar

Fjölspilun:

Leikurinn kemur með fjölspilun í formi FOB, eða Forward Operating Base. Það eru stöðvar sem Venom Snake getur sett upp og eiga að hjálpa honum að styrkja herinn sinn betur. Það sem gerir FOB dæmið forvitnilegt er að aðrir leikmenn geta laumast inn þar og stolið mönnum og tólum jafnvel þegar þú ert ekki með leikinn í gangi. Til að sporna við þessu er hægt að uppfæra þessa stöðvar með mönnum og tækjum sem gerir erfiðara að ráðast á þær. Hægt er einnig þegar þú ert með leikinn í gangi og er ráðist á stöðina þína, að fara sjálfur og finna óvininn og drepa hann.

Það eina sem hefur verið vandamál síðan að leikurinn kom út og það er að netþjónar Konami hafa verið að finna fyrir álaginu og virka oft ekki. Það gerir það að verkum að vissir hlutar virka ekki á meðan eða að leikurinn virðist stoppa til að hugsa. Ég lenti einu sinni í því að vera að ráðast á FOB stöð annars leikmanns og netþjónarnir dóu og ég fyrir vikið taldist hafa tapað þrátt fyrir að hafa þurrkað alla hermennina út. Það var frekar svekkjandi og er að vona að Konami finni úr þessu áður en Metal Gear Solid Online á að koma út í Október.

Stærsti hluturinn sem er hægt að kvarta yfir með hvernig FOB fjölspilunin virkar, er að það eru svo kallaðar „míkrógreiðslu“ möguleikar í boði. Hægt er að kaupa MB krónur sem flýta fyrir þróun hluta á FOB stöðinni. Þetta er eitthvað sem þekkist sem í farsíma og free2play markaðinum, en ekki alveg í leikjum sem er borgað fullt verð fyrir út úr búð. Það er ekki þörf að nota þetta, en freistingin er til staðar handa fólki sem er óþolinmótt.

Hægt er að beita ýmsum ráðum að losna við óvænta gesti

Hægt er að beita ýmsum ráðum að losna við óvænta gesti

Ending:

Hérna er eitthvað það sem leikurinn ætti ekki að svíkja um og ætti að vera vel virði kaupverðisins. Hægt er að fara í gegnum sögu leiksins á svona 30-50 tímum og fer það talsvert eftir hve lítið er gert af auka verkefnunum og auka sögunni. Til að sjá allt og fá almennilega úr leiknum fer talan uppí 70-120 tíma og fer það eftir hve djúpt og langt þið viljið hoppa í leikinn.

Mér varð talsvert hugsað til lengdar leikja á meðan ég var að klára The Phantom Pain, fyrri MGS leikir hafa verið styttri og talsvert hnitmiðari. Lengd þessa leiks kemur auðvitað að hluta útaf opnum heimi hans og hve auðvelt er að týna sér í að þvælast um og finna nýja hluti til að kanna og betrumbæta Mother Base. Þegar er síðan bætt ofan á FOB verkefnin og síðan Metal Gear Online sem á að koma út í Október þá mun bætast vel í tölur leiksins fyrir áhugasama.

Þó að ég sé búin að sökkva um 90 tímum í leikinn þá langar mér enn að spila hann og hefur það mikið að segja um hve vel heimurinn og borðin eru hönnuð og góð stjórnunin er.

Þetta er ekki Metal Gear leikur án svona risa

Þetta er ekki Metal Gear leikur án svona risa

Lokaorð:

Ég hefði viljað að leikurinn hefði kannski haft aðeins færri hliðarverkefni og einblýtt meira á söguna og kannski nokkur viðbótar „cut-scenes“ en ég veit að ég er ekki endilega í meirihluta þarna. Leikurinn á stundum til að vera pínu einfaldur í hvernig verkefni hans eru sett upp og það hefði verið gaman að sjá aðeins meiri fjölbreytni í þeim, ég veit að einhverjir annmarkar hljóta að vera útaf gerð leiksins og síðan hvernig framleiðsla hans gekk undir lokinn þegar deilur Konami og Kojima voru sem mestar. Maður finnur pínu eins og það hefði vantað meira í leikinn og ef er skoðað aukaefnið á Blu-Ray disknum með safnaraútgáfu leiksins þá kemur það í ljós. Hvort að þetta hefði verið nóg til að bæta upp fyrir alla þessa vankanta er erftitt að segja. Við verðum auðvitað að dæma það sem er á disknum en ekki hvað hefði geta verið.

Eitt af því sem ég get fundið að í leiknum og mátti segja líka um Metal Gear Solid 4 og það er hvernig konur eru sýndar, bæði í klæðaburði, hegðun og útliti. Kojima talaði um þegar gagnrýnin var sem hæst í sambandi við útlit leyniskyttunnar Quiet, að fólk myndi taka orðin tilbaka þegar það sæi alla söguna. Eftir að hafa spilað leikinn í gegn verð ég því miður að segja að kallinn hafði ekki rétt fyrir sér að mínu mati. Það er hægt að sýna konur sterkar og góðar án þess að láta þær vera í smá bíkíní og brjóstin hoppandi um allt. Það þarf ekki að fara lengra en tilbaka í MGS 3: Snake Eater til að sjá hvernig Big Boss og Eva voru sýndar.

Leikurinn er almennt frábær og meiriháttar endalok Hideo Kojima við stjórnvölinn, það hefði þó verið gaman ef að framleiðslu vandamálin hefðu ekki alveg skilað sér í leikinn sjálfann, en svona er það bara.

Já sagan tekur sannarlega dökka og blóðuga kafla

Já sagan tekur sannarlega dökka og blóðuga kafla

Sagan er óvenjulega dökk á köflum og kannar það hyldýpi sem hefndin getur búið til, kannar hvernig tungumál getur mótað okkur og sundrað og hver stjórnar okkar framtíð?

Á meðan er beðið eftir að sjá hvaða verkefni Hideo Kojima tekur að sér næst þá er vel þessi virði að sökkva sér í Metal Gear Solid V: The Phantom Pain á meðan.

Einkun: 9,5 af 10 Mögulegum 

Skrifað af: Bumbuliuz ©
Sveinn A Gunnarsson
Öll afritun á texta er stranglega bönnuð nema með leyfi höfundar.