Rainbow Six Siege

SiegePS4

Framleiðandi: Ubisoft
Útgefandi: Ubisoft Montreal

Kynning

Rainbow Six leikjaseríuna þarf kannski ekki að kynna fyrir nokkrum manni en leikjaserían spratt út frá bók Tom Clancy um Rainbow counter-terrorism sveitina. Leikjaserían er orðin ansi rótgróin í leikjasamfélaginu og taktískir skotleikir hennar hafa verið að koma út allt frá fyrsta Rainbow Six leiknum árið 1998. Nýjasta viðbót hennar heitir Rainbow Six Siege og fjallar grein þessi um hann.

Rainbow Six Siege er hefðbundinn fimm á móti fimm fyrstu persónu skotleikur en stendur afar mörgum skotleikjum framar þegar það kemur að því að hvetja spilara til þess að spila saman sem einn þar sem leikurinn verðlaunar þá sem vinna vel saman en refsar þeim miskunnarlaust sem gera það ekki.

situations

Siege er nánast eingöngu ætlaður til fjölspilunar og skartar því engum söguþræði fyrir utan tíu æfingarborðin eða situations sem afar gott er að spila í gegnum til þess að læra á leikinn og hvernig spilanlegir karakterar (e. Operators) hans virka. Æfingaborðin afla spilurum einnig renown sem er gjaldmiðill leiksins og nýtist í að aflæsa karakterum hans, aukahlutum á vopn þeirra, s.s. miðum, hljóðdeyfum, gripfangi o.fl.

Fjölspilun

Leikjategundir leiksins eru þrjár þar sem annað liðið er alltaf að verjast en hitt að ráðast inn í byggingar í leit af gíslum, sprengjum eða efnavopnum sem þeir þurfa annað hvort að bjarga gíslinu, afvirkja vopnin eða aflífa alla í óvinaliðinu til þess að sigra lotuna. Fyrsta liðið sem nær þremur sigrum (fjórum í ranked leikjum) sigrar leikinn. Spilanlegir karakterar leiksins eru bundnir við hvaða lið þú ert að spila og í upphafi hverrar lotu þurfa spilarar að velja hvern þeirra þeir vilja notast við þar sem fyrstur kemur, fyrstu fær.

Í upphafi hverrar lotu er 30 sekúndna undirbúningstími þar sem verjendur keppast við að leggja gildrur og önnur hindrandi raftæki ásamt því að styrkja veggi og reyna að hindra það að óvinaliðið nái til þeirra. Árásarliðið aftur á móti hefur 30 sekúndur til þess að hafa uppi á svæðinu sem hitt liðið heldur sig við með litlum myndavéladrónum.

R6-window-breach

Koma þeir inn um gluggana, í gegnum vegginn, niður úr loftinu? Það sem gerir Siege einstakan er að enginn lota spilast eins því þegar þú heldur að þú hafir séð það allt, þá gerist eitthvað nýtt. Einstakir spilastílar hvers og eins og hvernig liðið spilar sem heild er það sem sigrar leiki, ekki run and gun einspilarar því í Siege, þá eru það fyrstu mennirnir til þess að deyja.

Umhverfið í leiknum skiptir öllu máli, stór hluti veggja, hurða og jafnvel gólffletir eru ekkert annað dauðagildrur fyrir þá sem eru að spila gegn liði sem er að merkja óvini fyrir hvorn annan. Engin sérstök krafa er gerð til þess að berja óvininn augum áður en þú aflífar hann. Önnur lið nálgast svo leikinn á allt annan hátt og sprengja og brjóta allt upp sem á vegi þeirra verður og hrúgast inn úr loftinu, inn um gat á veggnum og í gegnum næsta glugga, allt á sama tíma. Hvernig er hægt að verjast þannig liði? Gaddavír og rafmagn, sprengiefni, styrktir veggir og aðrar hindranir er allt eitthvað sem getur ráðið úrslitum, sérstaklega þegar óvinaliðið kemur blint inn í herbergið.

siege-rainbow-six-2015-12-06-04-00-37.mp4_.00_00_39_11.Still002-590x900

Enginn leikur er fullkominn en matchmaking kerfi leiksins hefur verið til einhverra vandræða. Það getur reynst erfitt að finna leiki í sumum leikjategundum leiksins á sumum tímum sólarhringsins (þetta gæti reyndar stafað af minna framboði spilara á ákveðnum tímum miðað við stærstu skotleikina). Biðin getur oft orðið ansi löng því leikurinn fer undantekningalaust ekki í gang fyrr en bæði liðin hafa fimm spilara hvort. Það væri nú ekki sanngjarnt að leikir færu í gang 5v4 en það er nokkuð víst að flestir myndu vilja spila 4v4 leiki á meðan beðið er eftir síðustu tveimur í stað þess að sitja í margra mínútna matchmaking ferli. Á annasamari tímum þar sem flestir spilarar eru við tölvurnar er þetta þó ekkert vandamál.

Terror Hunt

Terror Hunt gefur svo liðum tækifæri á að spila einstaka leiki í sömu borðum og ekki ósvipuðum leikjategundum og competitive fjölspilun leiksins gegn tölvustýrðum óvinum. Það veltur reyndar á erfiðleikastillingu en realistic Terror Hunt er alls ekkert grín og mun reynast afar mörgum liðum gríðarlega erfitt að ná fram þó ekki nema einum sigri.

maxresdefault

Þrjár leikjategundir er að finna í Terror Hunt hluta leiksins en allar eru þær ákveðnar aðstæður sem þarf að vinna úr s.s. halda einstaklingi í gíslingu og verjast óvininum, ráðast inn í hús og aftengja tvær sprengjur sem þeir hafa sett upp eða einfaldlega elta þá uppi og drepa þá.

Terror Hunt er skemmtileg leið til þess að drepa tímann eða spila með vinum. Realistic stilling leiksins gerir Terror Hunt svo að gríðarlega skilvirkri leið til þess að æfa hæfni, hittni og nálgun liðsheildarinnar í borðum leiksins svo hægt sé að bæta sig á móti öðrum spilurum. Realistic stillingin er reyndar svo miskunnarlaus að það er eiginlega auðveldara að sigra leiki gegn öðrum spilurum. Þrjóskir spilarar líkt og undirritaður geta skemmt sér konunglega við að reyna að vinna allar leikjategundir á þessu erfiðleikastigi og aðrir geta nýtt sér auðveldari stig fyrir ágætis co-op afþreyingu.

rainbow_six_siege_floor_breach

Lokaorð

Þeir sem hafa tök á að hópa sig saman í fimm manna lið af kappsömum spilurum gætu átt von á einhverri allra bestu spilun sem völ er á því enginn skotleikjaunnandi ætti að láta þennan framhjá sér fara. Þeir sem færðu sig undir lok CS 1.6 yfir á leikjavélarnar hérna í gamla daga ættu hiklaust að næla sér í eintak af Siege. Leikirnir eru kannski ekki að öllu sambærilegir en andrúmsloftið sem skrimmin í CS sköpuðu er eitthvað sem taktíska dýptin í Siege gefur líka, sérstaklega þegar tvö lið mætast sem bæði eru að leggja mikla vinnu og pælingar í leikina sína og spila til þess að vinna.

Undirbúningur í byrjun lotunnar er lykilatriði og að samhæfa hlutverk og eiginleika mismunandi karaktera leiksins og vinna taktíst saman að settu marki er það sem þarf til þess að ná árangri. Undirrituðum finnst hefðbundnum fyrstu persónu skotleikjum í dag vera farið að mistakast að kalla fram þessa liðsheild sem spilarar ættu að vera að skapa til þess að sigra leikina sína þar sem K/D skiptir öllu á meðan W/L er jafnvel í skítnum.

Það gerist auðvitað ekki í hverjum einasta leik en svo oft nær Siege að mynda sterka liðsheild á milli ókunnugra spilara sem eru að parast saman jafnvel í fyrsta skiptið. Spilarar enda jafnvel á að halda liðinu í fjölda leikja og samskiptin og umræður um hvernig nálgast eigi hverja lotu fyrir sig aukast með hverjum leiknum, það er á þessum stundum sem Siege er algjörlega einstakur leikur.

Lokaeinkunn: ★★★★★★★★★☆ 

9,0 af 10 mögulegum.

 

Höfundur: Steini (Grjoti)