The Division

cover

 

Útgefandi: Ubisoft
Framleiðandi: Ubisoft Massive

Á örlagaríkum Black Friday veldur hröð útbreiðsla erfðabreytts sýkils algjörri ringulreið, manntjónið er mikið og þegar líður á veturinn verður vatn og matur af skornum skammti. Glæpagengi rísa til valda og söðla undir sig stórum umráðasvæðum innan Manhattan og misnota ástand borgarinnar sér til góða.

Þú spilar sem meðlimur Division, deild sérþjálfaðra viðbragðsaðila sem aðeins eru virkjaðir til þess að leysa aðstæður sem runnið hafa ríkisstjórninni og helstu viðbragðsaðilum hennar úr greipum. Markmið þeirra er einfalt, verja óbreytta borgara og reyna að koma á fyrra jafnvægi.

tc-the-division-agents-journey-social-hub

Söguþráður Division er spennuþrungið og afar vel samsett ferðalag í leit þinni að þeim sem bera ábyrgð á útbreiðslu sýkilsins ásamt tilraunum til þess að draga úr umsvifum þeirra glæpagengja sem halda borginni í gíslingu. Söguþráður leiksins spilast út í þó nokkrum megin borðum og einkennist af góðu flæði og skilur eftir sig ótal minnistæða atburði og lokabardaga. Það versta við hversu góður söguþráður leiksins getur orðið á sínum bestu stundum er hversu oft og títt hann er brotinn upp af endurtektarsömum auka borðum (side missions) og encounters. Level skilyrði borðanna mynduðu oft á tíðum of stórt bil svo spilarar neyðast til þess að draga sig í hlé frá söguþræði sem ætti frekar að fá að njóta sín í órofnu flæði. Það er ekkert að því að spilarar þurfi að grinda í hæsta mögulega level, Massive hefðu einfaldlega mátt leyfa spilurum að komast áfram í gegnum alla sögu leiksins með það sem val hvort fólk vildi grinda fyrir, á meðan eða einfaldlega eftir að söguþræðinum væri öllum lokið. Eitthvað sem hvorki myndi flýta fyrir endgame leiksins né neinu öðru, einfaldlega leyfa spilurum að hámarka upplifun frábærra borða megin söguþráðar leiksins.

Aukaborð og encounters leiksins eru alls ekki slæm, þau eru bara af þeirri tegund að þau endurtaka sig of oft, eins og í mörgum öðrum leikjum opinna heima nýta leikjaframleiðendur sér fjórar til sex hugmyndir sem endurtaka sig svo bara. Í stað þess hefði örugglega ekki verið gríðarlega erfitt að hafa fjölbreyttari verkefni fyrir hendi. Sérstaklega þegar litið er til þess að þessa hluti þarf nauðsynlega að klára til þess að geta fullklárað þrjár grunnstoðir bækistöðvar þinnar en þessar þrjár stoðir (medical, technical og security wings) eru gátt spilara að öllum eiginleikum karaktera þeirra.

The-Division-Open-World-Map

Hér kemur að þeirri ágætu dýpt sem Massive hafa náð í Division. Spilarar geta hagað karakter sínum á ótal mismunandi vegu, mismunandi eiginleikar, hæfileikar og kostir (abilities, talents og perks) og það besta við þá er að þeim má breyta og skipta út hvenær sem er. Með þessu tóku Massive að mínu mati gríðarlega góða ákvörðun sem refsar ekki spilurum sem hafa ekki heilsteypta mynd af hvernig þeir vilja byggja karakterinn sinn upp. Spilarar hafa frjálsar hendur til þess prófa og breyta og fínstilla eftir eigin tilraunum og taka síðar upplýsta ákvörðun eftir nokkurs konar „trial and error“ hvernig þeirra besta mögulega útgafa spilast út.

Ofan á þetta kerfi bera öll vopn með sér ákveðna eiginleika sem verða betri og betri því sjaldgæfari sem þau verða. Vopnin má svo bæta og breyta eiginleikum þeirra með margvíslegum aukahlutum svo sem magasínum, haldföngum, miðum og fleira. Herklæðin (gear pieces) í leiknum eru til dæmis formi vestis, hnéhlífa, hanska og grímu og hvert af þeim telur til þriggja flokka sem hafa hvað mestu áhrif á hvernig karakterinn kemur til með að virka. Þessir flokkar nefnast firearms, stamina og electronics og ákvarða hversu mikla áherslu þú vilt leggja á hversu mikinn skaða vopn þín gera, hversu mikið líf þú vilt hafa eða hversu öflug skills þín eru. Massive hafa hér að mínu komið frá sér afar vönduðu karakter kerfi sem hægt verður að dunda sér við og breyta og bæta út líftíma leiksins.

inventory

Nýja Snowdrop grafíkvélin frá Ubisoft sýnir hvað í sér býr og skilar glæsilegri útgáfu af yfirgefinni og stríðshrjáðri miðborg Manhattan svæðis og borðahönnun er hér alveg til fyrirmyndar. Veðurkerfi leiksins bætir svo um það sem upp á vantar er breytilegt allt frá logni og blindandi sól yfir í þoku eða smávægilegan snjóbyl. Allt eitthvað sem getur haft mikil áhrif á þá bardaga sem eiga sér stað hverju sinni þar sem það mun ekki alltaf vera veður í að liggja í nokkur hundruð metra fjarlægð í makindum sínum með góðan riffil.

the-division-explosive

Eins vel og Massive hafa farið með hönnun þessa opna heims eru leikir af þessari stærðargráðu aldrei gallalausir. Cover kerfi þeirra er frábær hugmynd en á það til að virka ekki alltaf eins vel og það þyrfti að gera. Cover to cover færslur heppnast ekki alltaf og stundum dettur maður úr cover á verstu stundum. Einnig mætti bæta verulega úr næmni þess kerfis sem stýrir hvenær maður geti klifrað upp og niður af hlutum þar sem þetta verður oft til mikilla vandræða. Division er einnig ekki laus við smávægilega galla á borð við að festast á hinum og þessum hlutum umhverfisins ásamt verri vandræðum þar sem spilarar sökkva niður í gólf og inn í veggi og þurfa að endurræsa leiknum. Gallar sem þessir eru þó ekki tíðir og geta skiljanlega átt sér stað í leikjum sem þessum fyrstu daga, vikur eftir útgáfu þeirra.

Endgame leiksins er sem stendur örlítið of þunnt, það skortir meira efni en strax frá útgáfu leiksins hefur það legið fyrir að eitthvað af fríu efni sé væntanlegt strax á fyrstu vikum leiksins. Þegar spilarar hafa komist á level 30 tekur við þeim daglegar áskoranir í PvE hluta leiksins sem snúa að því að endurspila borð á Hard og Challenging erfiðleikastigum. Hard borðin eru tvö hvern dag og eru þokkalega auðveld 15 Phoenix Credit hvort. Challenging borð dagsins er önnur saga, það veltur reyndar gríðarlega á hvaða borð er hverju sinni en ansi stór hópur spilara ná ekki einu sinni að klára borðin, jafnvel ekki komast inn fyrir fyrstu óvini þess. Þegar að þessum borðum er komið eru þeir spilarar sem tilheyra öflugum hópi best settir þar sem það er engan veginn hægt að sporna við pörun við slaka spilara (the carry is real). Fyrir góða hópa er Challenging borðin skemmtileg áskorun og vil ég leyfa þeim sem ekki hafa spilað leikinn að skella sér í eitt svona borð án þess að vita hvað breytist og taki við þeim. Stökkið er mikið frá laufléttum Hard borðum og hér fer búnaður þinn og hvernig þú hefur raðað karakter þínum að skipta mun meira máli en áður.

rogue

Dark Zone Manhattan er mögulega ein áhugaverðasta og ferskasta hugmynd sem ég hef séð til lengri tíma. Nokkurs konar PvPvE svæði þar sem allt er leyfilegt, spilarar geta snúist gegn öðrum spilurum, stolið öllu steini léttara en þess í stað þurfa að taka afleiðingum þess að vera hundeltir af öðrum spilurum sem svikulir rogue agents. Það versta við Dark Zone er hversu mikla skekkju Massive hafa sett á kosti og galla beggja hliða þess að vera heiðarlegur útsendari og fjöldamorðingi NPC (non-player character) spilara eða þeirra sem svíkja lit og snúast gegn öðrum spilurum. Spilarar fá afar verðlaunandi XP boost við að drepa rogue spilara en rogue spilarar missa margfalt, margfalt meira XP við að deyja sem rogue án þess að fá nokkuð við að lifa það af nema smávægilegt magn Dark Zone Credits. Þá ekki nema þeir spilarar sem rogue menn ákveða að drepa lumi á góðu loot til þess að stela, eykur kannski hugsanlega kosti þess en ræðst þó af engu öðru en lukku hverju sinni.

Dark Zone býður þó upp á afar spennuþrungið umhverfi þar sem spilarar verða gríðarlega varir um sig þegar þeir mætast á förnum vegi. Sumir fara að hjálpast að við að taka út NPC hópa og nefnda óvini sem líkegri eru til að bera betra loot. Aðrir bíða þar til spilarar fara og reyna að koma loot út úr Dark Zone (á ákveðnum extraction zones) og myrða þá alla og taka það sjálfir. Svo eru alltaf þeir sem drepa alla aðra sér til gamans og hætta því að allir aðrir spilarar á svæðinu hópast gegn þeim. Það sem Massive þyrftu að gera er að jafna aðeins út kosti og galla þess að verða rogue, þó ekki svo mikið að það verði of verðlaunandi því það myndi koma niður á þeim sem koma í lægri levelum inn á svæðið. Það mætti þó aðlaga það þannig að það sé ekki svona gríðarlega refsandi ef þú hefur þetta ekki af.

TCTD_screenshot_agent_pistol_embargo_011516_7amPT

Önnur skekkja sem orðið hefur á endgame leiksins er að í Dark Zone droppar meira og minna aðeins level 30 búnaður á meðan Phoenix Credit geta fært þér eins og áður sagði level 31 byssur og búnað sem gerir Dark Zone svæðið í raun og veru gagnslaust. Þar er að segja ef spilarar eru að hugsa um að grinda fyrir sem bestum búnaði til þess að takast á við komandi endgame efni sem er væntanlegt á næstu misserum. Fyrstu daga leiksins var drop tíðni high-end búnaðar gríðarlega há fyrir þá spilara sem voru snemma í level 30. Massive eru með gríðarlega mikið viðhald svo leikurinn haldist í ákveðnu jafnvægi og draga með því úr því að spilarar notfæri sér það. Þessi drop tíðni var löguð gríðarlega fljótt í einhverju sem virðist örvæntingafull tilraun til þess að lengja líftíma endgame leiksins þar til aukaefni hans kemur út. Ég til að mynda fékk 3 high-end drop frá DZ levelum 11-15 en eftir lagfæringu hef ég ekki fengið eitt einasta frá levelum 15 til 52. Svona miklar breytingar eru varhugaverðar þar sem of mikið grind, eitthvað sem verðlaunar nánast ekkert getur orðið afar svekkjandi fyrir óheppna aðila sem ekki njóta náða drop guðanna.

Q0lDK4Pvs4R8.878x0.Z-Z96KYq

The Division býður þó upp á heilmikið efni frá fyrsta degi, hvort sem þú spilar í hópum eða einn þá tekur söguþráður leiksins og að komast að endgame hans alveg frá 15 upp að 30+ klukkustundum fyrir þá sem fara sér hvað hægast. Dark Zone leiksins ásamt daglegum áskorunum geta haldið spilurum sem ekki hafa gríðarlegan frítíma uppteknum vel fram að fríum viðbótum sem bíða spilara á næstu misserum. Sem stendur réttlætir efni leiksins alveg verðmiða hans og gæti gert gott betur þegar hulunni verður svipt af komandi Incursion hluta leiksins. Hvað það verður, þarf að fá að koma í ljós. Dark Zone líkt og söguþráður leiksins er alltaf betra með góðum hópi, Division er leikur sem ætlaður er hópspilun þó lone wolfs geta skemmt sér konunglega líka svo lengi sem óprúttnir hópar taki ekki að níðast á þér sér til gamans. En það mun alltaf gera gott betur að geta ekki bara raðað saman þínum eigin karakter heldur púslað saman frábærlega vel samsettu liði sem hver og einn hefur ákveðna kosti sem virka vel saman. Sum Challenging borðin geta verið erfið en þau má auðvelda svo um munar með strategískri hugsun, samvinnu góðri spilamennsku. Eitthvað sem spilarar munu eflaust þurfa að temja sér fyrir stærri áskoranir sem Massive ætla spilurum yfir næsta árið.

YI3FOCm

Að lokum vil ég einnig bæta við að faldir loading tímar leiksins þegar þú gengur í gegnum safe houses, checkpoints eða inn í base of operations og matchmaking kerfi leiksins eru eitthvað allt annað. Í svo stórum leik að þú getir labbað inn og út úr PvPvE hluta leiksins á meðan hópurinn þinn sé jafnvel að endurspila borð eða ráfa um PvE hluta hans án þess að loada verður að segjast ansi mikilsvert. Leikurinn skartar einnig einhverju skilvirkasta og hraðvirkasta matchmaking kerfi sem ég hef nokkurn tímann upplifað og hefur virkað vel frá fyrsta degi leiksins. Massive menn eiga líka lof skilið fyrir að bregðast fljótt og örugglega við kvörtunum og athugasemdum frá samfélagi leiksins og fínstilla galla hans og viðhalda jafnvægi spilun.

The Division er kærkomin viðbót Tom Clancy seríunnar sem byggir á frábærri formúlu og ferskum hugmyndum sem glæða nýju lífi í leiki sem þessa. En eins og allt sem er nýtt smellur ekki allt samstundis saman, ég hef þó fulla trú á því að Massive menn læri og aðlagist enda hafa þeir mikla möguleika á bætingum og frítt efni enn ókomið. Þeim sem ekki líst vel á leikinn sem stendur geta beðið og séð hvað apríl mánuður ber í skauti sér. Flestir skotleikja og MMORPG unnendur ættu hiklaust að gefa The Division tækifæri enda skotheld skemmtun sem við höfum fulla trú á að eigi enn eftir að sjá enn betri tíma.

Einkunn: ★★★★★★★★☆☆ 

 

Sérstakar þakkir Myndform fyrir eintak af leiknum.

 

Höf.: Steini (Grjoti)

PSN: thorsteinnvh