Battleborn

812CB3Dt3hL._SL1500_

 

Útgefandi leiksins er 2K Games
Framleiðandi leiksins er Gearbox Software
Battleborn keyrir á Unreal Engine 3

Battleborn er fyrstu persónu skotleikur með nokkurs konar MOBA (e. multiplayer online battle arena) ívafi. Leikurinn gerist í heimi fjarlægrar framtíðar þar sem leyndardómsfullur óvinur hefur orðið til þess að auðlindir nærri allra reikistjarna alheimsins eru uppurnar. Spilarar geta valið á milli þess að fara með hlutverk 25 ofurhetja úr fimm bandalögum sem öll hafa tekið sig saman í bandalagið Battleborn. Tilgangur Battleborn er að berjast gegn þessum óþekkta óvini og saman bjarga síðustu plánetu alheimsins, Solus og þeim auðlindum sem þar er að finna.

 

battleborn-screenshot-1

 

Söguþráður leiksins skiptist í spilanlega kafla en söguþráðurinn er spilanlegur af einum spilara eða allt að fjögurra manna liðum. Leikinn má spila á skiptum skjá, yfir netið hvort sem um ræðir vini eða með random matchmaking. Spilanlegir karakterar leiksins eru hvorki meira né minna en 25 talsins og því af nægu af taka. Þessir 25 spilanlegu karakterar skiptast í þrjár tegundir af attackers, defenders og support flokkum. Attackers eru þeir sem hafa hæsta DPS og spilast best aggressíft, meðal magn lífs og öflug vopn. Defenders eru þeir sem kallast yfirleitt tanks eða tankar, þeir eru með mesta magn af lífi, þola meira en allir aðrir og hafa vopn sem eru í meðallagi. Support hópurinn eru svo þeir sem hjálpa öllum hinum, halda í þeim lífi eða veita þeim skjól.

Hvert borð í söguþræði leiksins er ekki ósvipað sjónvarpsþætti í seríu en serían í þessu tilfelli telur níu þætti sem hver og einn hefur sinn eigin söguþráð á meðan spila þeir allir saman heildarmyndina. Hvert borð hefur ákveðin markmið sem spilarinn eða liðið sem spilar borðið þarf að klára, ef það mistekst á einn eða annan hátt þá þarf að spila allt borðið frá byrjun aftur. Þetta verður til þess að liðið sem spilar saman þarf að vanda valið vel og vera meðvitað um samsetningu liðsins og þá karaktera sem valið er að nota. Svona fyrirkomulag gerir það að verkum að spilarar séu ekki endilega að festa sig við einn og sama karakterinn heldur þurfi að breyta og aðlagast eftir hvernig hvert borð er og hvað þarf til þess að ljúka því. Vandamálið er þó að Gearbox Software fóru töluvert ódýra leið til þess að reyna á hæfni spilara þar sem nokkur borðanna tapast á ansi ósanngjarnan hátt.

2K_Battleborn_CoopTeamwork_1

Í hverju borði eru eins og áður sagði nokkur takmörk sem spilarar þurfa að ná, hvort sem það er að sigra ákveðna endakalla eða að verja hluti sem óvinurinn reynir að eyðileggja. Hvert borð getur tekið frá hálftíma og allt að klukkustund eftir hæfni og erfiðleikastigi sem spilarar spila á. Það er því frekar ömurlegt þegar borðin tapast á lokasprettinum og byrja þarf upp á nýtt. Áskoranir eru af hinu góða að mati höfundar og tekur þeim fagnandi í tölvuleikjum. Það er þó frekar ódýrt þegar borð sem að öllu öðru leiti eru auðveld tapast á síðustu mínútum leiksins þegar síðasta bylgja óvina á síðasta hlut sem þarf að verja eyðileggja það á nokkrum sekúndum og byrja þarf upp á nýtt. Þetta er ákveðinn gamebreaker sem ólíklegt er að nokkur maður hafi gaman að en sem betur fer plagar þetta aðeins eitt eða tvö borð leiksins. Leiðindin eru þó þau að næsta borð opnast ekki fyrr en spilarar ljúka við undanfara þess og því geta spilarar lent í að þurfa að spila eitt og sama borðið marg oft í gegn þó að allt annað hafi verið frekar auðvelt.

Söguþráður leiksins er þó ekki alslæmur, borðin geta mörg hver verið mjög skemmtileg og alltaf góður kostur þegar leikir eru gerðir til þess að spila með vinum. Spilun er alltaf öðruvísi þegar hópur fólks getur spilað saman og með alla þessa karaktera til þess að velja um, geta lið dundað sér tímunum saman í að fullkomna sitt lið og sína nálgun á söguþræði leiksins sem og fjölspilun hans. Í leiknum geta spilarar tekið upp shards sem er nokkurs konar gjaldmiðill fyrir öll buildables í leiknum en þau reynast mjög mikilvæg á erfiðari köflum leiksins.

Hetjur leiksins eru eins og áður sagði 25 talsins, þær raðast niður í þessar þrjár týpur sem nefndar voru hér fyrir ofan en tilheyra svo fimm factions sem hvert hefur sína forsögu. Hver karakter hefur sín vopn og eiginleika sem ekki er hægt að breyta eða skipta út og þar af leiðandi eru engin vopn sem spilarar finna í framvindu leiksins heldur þurfa þeir að flakka á milli karaktera til þess. Hver karakter hefur þó helix kerfi þar sem hann getur farið frá level eitt upp í tíu og valið og hafnað á milli tveggja til þriggja hluta sem hann vill bæta við karakter sinn við hvert level. Helix kerfið endurræsist í hverjum leik og því alltaf hægt að fara mismunandi leiðir með karakter sinn eftir stað og stund og kröfum hvers verkefnis. Tvö önnur kerfi nýtast í að endurspegla framvindu spilara í leiknum en spilarar geta farið í varanlegt rank tíu á hverjum 25 karakterum leiksins sem nýtist þó eiginlega bara í taunt og skin karakteranna. Hitt kerfið kallast command rank og sýnir hversu langt komnir spilararnir sjálfir og prófiílar þeirra eru.

Battleborn_StartScreen_HeroArt

Í leiknum geta spilarar þó keypt og fundið mismunandi verðmætt gear en þetta gear notast sem loadout af þremur stykkjum hvert. Þessi gear er svo hægt að nota í leikjum fyrir shards en hversu mikið hvert þeirra kostar fer eftir hversu sjaldgæft eða öflugt það er. Hér er verðgildi hvers gears mælanlegt í litum sem flestir sem spiluðu Borderlands leikina eða jafnvel Destiny kannast við. Algengast er hvítt, næst grænt, sjaldgæft er blátt, epískt fjólbublátt og að lokum er appelsínugult það verðmætasta.

Fjölspilun leiksins býður uppá þrjár leikjategundir sem hvor um sig er aðeins spilanleg á tveimur borðum hver (afar grátlegt og fátæklegt úrval borða því miður). Leikjategundirnar eru allar fyrir allt að tíu spilara, fimm gegn fimm og heita Incursion, Capture og Meltdown. Líkt og söguþráður leiksins heldur strategísk samsetning liðanna sem spila gegn hvort öðru áfram að vera eitt mikilvægasta element leiksins og getur bæði unnið sem og tapað leikjum.

Áhugaverðast fannst mér Incursion leikjategundin en þar þurfa lið að berjast gegn hvort öðru og vinna sig áfram í gegnum andstæðinga sína eins nálægt upphafsstað þeirra til þess að eyðileggja vélmenni þeirra. Það sem er svo áhugavert hér er að því lengra sem lið komast nærri upphafsstað hins liðsins eru þeir nær spawni þeirra og því verður leikurinn alltaf erfiðari fyrir þá sem eru að standa sig betur hverju sinni. Þessir leikir vinnast eða tapast oftar en ekki á tíma en eru í botni frá upphafi til enda. Capture er hefðbundið capture the flag kerfi þar sem spilarar ná og reyna að halda einhverjum af þremur flöggum borðsins en það lið sem heldur lengst af tveimur af þremur vinnur leikinn. Meltdown er svo sú leikjategund sem mé fannst síst þeirra þriggja en þar keppast lið um að koma litlum minions í brennsluofn í miðju borðsins en það lið sem kemur fleiri í ofninn vinnur leikinn.

Battleborn_Incursion_FP_Reyna_01

Fjölspilun leiksins getur verið alveg fáránlega skemmtileg, fjölbreytni í samsetningu liða með gríðarlegu úrvali karaktera sem hver hefur fáránleg vopn og eiginleika verður til þess að enginn leikur spilast eins. Endurspilanlegt gildi leiksins er hvað best vegna mikils fjölda spilanlegra karaktera. Spilarar þurfa þó að aflæsa þeim flestum þar sem aðeins nokkrir þeirra standa spilurum til boða frá upphafi. Það eru sem betur fer tvær leiðir til þess að aflæsa öllum karakterum og því ekki bundið við að spila ákveðin borð í söguþræðinum heldur er alltaf hægt að gera það með fjölspilun leiksins líka. Vandamálið er þó að leikurinn er ekki eins skemmtilegur þegar dræmt úrval karaktera stendur spilurum til boða og því mikilvægt að reyna að aflæsa sem flestum karakterum sem fyrst.

meltdown

Leikurinn lítur vel út og keyrir vel á Unreal Engine 3 grafíkvélinni en signature stíll Gearbox Software sem flestir þekkja úr Borderlands leikjunum fer leiknum vel. Battleborn er fyrirbæri sem virðist verða til þegar Borderlands stílnum og MOBA leikjategundinni hefur verið hent saman í blandara til þess að athuga hvað yrði úr. Útkoman er ágæt á köflum, söguþráður leiksins getur verið skemmtilegur til þess að spila með vinum en fjölspilun hans er klárlega þar sem hann er hvað bestur. Vandamál leiksins er efni hans eða skortur þar á þar sem aðeins tvö borð fylgja hverri leikjategund, þ.e. sex í heildina. Þetta er algjörlega til skammar sé litið til þess að leikurinn kom á fullu verði en leikir eins og þessir ættu aldrei að koma á 60$ eða á tæpar 11.000 kr hérlendis. Gallharðir MOBA aðdáendur ættu að kíkja á þennan, aðrir ættu að ef til vill að geyma hann þar til hann lækkar í verði, þá sérstaklega þeir sem ekki vita hvað þeim finnist um leiki af þessari tegund.

Einkunn: ★★★★★★¾☆☆☆ 

6.75 af 10 mögulegum.

 

Sérstakar þakkir til Senu fyrir eintak af leiknum.

 

Höfundur: Steini (Grjoti á psx.is)