Uncharted 4: A Thief’s End

81g8OYYNMkL._SL1500_

 

Kynning:

Uncharted leikja serían hófst árið 2007 á PlayStation 3 og hefur fljótt orðið ein af vinsælustu leikjaseríunum á vél Sony og spannað 5 leiki alls með þeim nýjasta. Í gegnum leikina höfum við fengið að fylgjast með ævintýrum Nathan Drake og öllum þeim ævintýrum og hasar sem hann lendir í, einnig höfum við fengið að sjá aðeins inn í baksögu hans og hvað fær hann til að taka allar þessar áhættur.

Í Uncharted 4: A Thief’s End er eins og nafnið gefur til kynna komið að endarlokum ævintýri Nathan Drake. Bæði fyrir ykkur sem hafið spilað alla leikina og persónuna sjálfa þá er þetta erfið endalok sem vonandi er fínn endir sem skilur fólk sátt við.

Uncharted-4_drake-sam-survived1

Drake bræðurnir

 

Saga:

Leikurinn byrjar þremur árum eftir atburði Uncharted 3: Drake’s Deception, Nathan hefur hætt að eltast við fjársjóði og vinnur við að hífa upp hluti sem hafa týnst í sjó og ám í kringum New Orleans þar sem hann og kona hans Elena búa. Hann hefur sagt við fyrra líf og er að reyna að fóta sig í hægum veraleikanum, hann virðist þó sakna spennu eldri tíma en hefur lofað að það sé að baki.

Eins og oft er í svona ævintýrum þá koma upp atburðir sem breyta því og draga Nathan aftur inn í hasarfengin ævintýri. Það sem byltir heimi Nathan’s er að bróðir hans, Sam Drake (raddaður af Troy Baker) snýr aftur eftir 15 ár og biður hann að hjálpa sér að finna týnda fjársjóð sjóræningjans Henry Avery sem hefur verið týndur öldum saman.

Við fáum í gegnum nokkra kafla að sjá aðeins af forsögu bræðranna í æsku og gefur þetta talsverða innsýn inn í líf þeirra og hvernig þeir enduðu á þessum ævintýraslóðum.

Það er best að segja ekki of mikið um sögu leiksins heldur að þar kemur við hinn ávallt trausti Sullivan “Sully” sem hefur verið Nate sem faðir í gegnum árin og aðrir úr fortíð hans. Stefnan er tekin á að finna goðsagnakenndu  sjóræningja “Útópíu” Libertalia. Ferðalag bræðranna tekur þá frá Bandaríkjunum til Panama, Skotlands, Ítalíu og Madagaskar.

Ég myndi segja að saga leiksins fjalli talsvert mikið um kostnaðinn við að vera með þráhyggju gagnvart einhverju og hvaða áhrif það hefur á þig og aðra í kringum þig.

Uncharted-4_elena1

Elena er enn ein af uppáhalds persónum mínum í seríunni

Grafík og Hljóð:

Ef að er hægt að segja að eitthvað sé stjarna leiksins fyrir utan sögu og persónur leiksins þá er það grafík og hljóð leiksins. Uncharted leikirnir hafa frá byrjun verið eitt það flottasta í boði hvort að það var á PlayStation 3 eða PlayStation Vita og Uncharted 4 er engin undantekning á PlayStation 4.

Leikurinn keyrir í 1080p upplausn og á 30 fps (rammahraða) í gegnum söguna og á 60 fps í fjölspilun leiksins en í 1600x900p upplausn.  Það er ljóst af hverju Naughty Dog ákvað þetta, og það var til að geta kreist eins flotta grafík úr PS4 og mögulegt væri á sama tíma að halda flæði leiksins.

Borð leiksins eru miklu stærri enn áður og sum þeirra eins og í Madagaskar hafa fleiri en eina leið til að fara um og er meira að kanna fyrir vikið en áður. Sú vinna við smáatriðin í leiknum og litla hluti er oft ótrúlegt að sjá, má nefna eitt t.d eins og hvernig steinar renna í halla og bregðast við þegar er rennt sér eftir þeim eða skotið á þá. Þetta er bara smá brot af því sem hefur verið lagt í leikinn og er þetta einn af þessum leikjum sem er best að upplifa á sjónvarpinu sínu í stað að skoða myndir af á netinu til að njóta til fullnustu.

Með tilkomu þess að Nate er talsverðan hluta leiksins með öðrum þá eru borðin mörg með betri möguleika á að laumast um en oft áður. Það er lítið mál að laumast í gegnum hátt gras núna og fara framhjá óvinunum eða taka þá út hægt og rólega.

Uncharted-4_drake-truck-drag1

Madagaskar skarta á köflum ótrúlega flottri grafík og hasar

Spilun:

Stjórnun í gegnum leikina hefur oftast verið nokkuð góð og hefur Naughty Dog lært af hverjum einasta leik sem þeir hafa búið til. Það var einmit hægt að sjá það vel á The Nathan Drake: Collection sem kom út í fyrra á PS4 og innihélt Uncharted 1-3 í uppfærðum útgáfum.

Hvort sem það sé að keyra um á jeppanum á Madagaskar, sveifla sér um á nýja reipinu eða skjótandi óvini þá er flæði leiksins oft alveg meiriháttar. Ein af nýjungunum í U4 er að núna er hægt að merkja óvinina þannig að þú getur séð hvar þeir eru í kringum þig, eina sem hefði líklega vantað væri að geta fært óvinina eftir á.

Það má kannski segja að sum stóru hasar atriðin í leiknum eru ekki á sama stærðarflokki og í fyrri leikjum, enn á móti fáum við fleiri smærri til að jafna þetta upp.

Að bæta við kapalinum til að komast í gegnum viss svæði og leysa þrautir, er virkilega góð viðbót við seríuna og kemur með smá ferskleika í formúluna. Það hefði verið gaman að sjá hann þó notaðan aðeins meira, eða minnsta kosti hafa möguleikann á því.

Uncharted-4_drake-scaffolding1

Nate hefur einstakan hæfileika að koma sér í vanda.

Netspilun:

Fjölspilun hefur verið í boði síðan að Uncharted 2: Among Thieves kom út og hefur alltaf verið fín viðbót við leikina en sjaldnast aðalrétturinn.

Það er hægt að spila 4v4 eða 5v5 í gegnum Team Deathmach, Plunder, Command og Ranked Team Deathmatch. Að vera með króks reipið úr leiknum sjálfum gefur fjölspilun leiksins nýja nálgun og getur gert að fara um borðin oft gríðalega gaman og snúið hlutunum við í hag lið þíns.

Það sem breytir talsvert spilun núna eru þeir hæfileikar sem er hægt að nýta sér. Með því að eyða peningum innan leiksins þá er hægt að kaupa og uppfæra tímabundið ótrúlega krafta og viðbætur sem geta haft talsverð áhrif á gang leiksins. Hægt er síðan að kalla fram “sidekicks” sem stjórnað er af gervigreind leiksins. Þeir geta sinnt vissum verkefnum eins og að drita niður óvini, lækna þig eða skjóta óvini úr fjarlægð með sniper riffli. Þessar persónur færa aukinn hasar í fjölspilunina og gera hasarinn á borðunum oft enn meiri.

Það eru átta borð í boði í byrjuninni og notast þau við umhverfi leiksins á vissan hátt sem grunn og er breytt síðan til að henta fjölspilun. Það er erfitt að segja til hvernig fjölspilun leiksin mun ganga eftir nokkrar vikur, enn það fría niðurhals efni og borð sem Naughty Dog hafa lofað fyrir leikinn ættu að hjálpa eitthvað til með að halda lífi í hasarnum.

MP

Fjölspilun leiksins er fín enn líklega ekki fyrir alla.

Ending og lokaorð:

Það mun líklega taka flesta um 12-15+ tíma að klára þá 22 kafla sem saga leiksins inniheldur, eftir það er hægt að spila leikinn á ný í erfiðari stillingum, reyna að klára hann á sem minnsta tíma ofl. Það eru hinir ýmsu hlutir sem er hægt að velja til að notast við að spila leikinn á ný eins og í fyrri leikjum í seríunni.

Það var lofað að þetta yrði endalok sögu Nathan Drake og verður að segja að þetta er hæfileg endalok fyrir hann og söguna. Það var erfitt að vita fyrirfram hvernig þetta myndi allt koma út, sérstaklega eftir að Amy Hennig var látin fara frá Naughty Dog og hönnuðir The Last of Us komu í hennar stað. Það er engan veginn hægt að vita hvernig sá leikur hefði komið út, en það sem við fengum var frábær leikur sem svíkur hvorki í spilun, útliti eða sögu og ætti að gleðja flesta aðdáendur leikjanna.

Einkunn: 9,5 af 10 Mögulegum

Framleiðandi: Naughty Dog
Útgefandi:
 Sony Computer Entertainment
Útgáfudagur: 10.05.2016
Útgáfa spiluð: PS4.

Heimasíða:  http://www.unchartedthegame.com/en-gb

Skrifað af: Bumbuliuz ©
Sveinn A Gunnarsson
Öll afritun á texta er stranglega bönnuð nema með leyfi höfundar.