Titanfall 2

cover

Útgefandi: EA Games

Framleiðandi: Respawn Entertainment

Titanfall 2 keyrir á Source grafíkvélinni

Kynning

Titanfall 2 kom út á dögunum en ólíkt forvera sínum geta Playstation 4 eigendur nú fengið að taka þátt í gleðinni þar sem sá fyrri var Microsoft exclusive. Því er tilvalið að rekja stuttlega baksögu Titanfall fyrir þá sem ekki hafa spilað Titanfall áður. Fyrri leikurinn bauð einungis upp á fjölspilun, 6v6 sem einkenndist af gríðarlegum hraða og hreyfanleika. En hver er sagan á bakvið þessi stóru vélrænu bardagavélar sem spilarar stýra í leikjunum?

Mannkynið hefur aldrei ferðast jafn langt og býr nú á áður óþekktum svæðum geimsins. Þeir sem hafa ferðast lengst lifa á svæði sem kallast “The Frontier” og er í útjaðri þess sem mannkynið hefur komist. Þangað leita aðeins ákveðnir hópar í leit að nýjum ævintýrum eða tækifærum en auðlindirnar þar urðu til þess að fyrirtækið Hammond Robotics þróuðu Titans sem eru framþróun á stoðgrindunum sem við þekkjum í dag (e. exoskeletons). Til þess að gera langa sögu stutta þróast Hammond Robotics á endanum í ofurveldið IMC (Interstellar Manufacturing Corporation) en græðgi þess varð fljótt til þess að herlið óbreyttra borgara (the Milita) reis upp gegn stórveldinu og úr varð “Titan Wars” eða atburðir Titanfall.

 

1

 

Saga

Titanfall 2 hefst beint í kjölfar Titanfall en uppreisnin er nú komin í sókn, IMC hefur veikst töluvert og er ekki að fá nauðsynlegan liðsauka. The Milita sækja nú hart að því að ná aftur stjórn yfir “The Frontier” og auðlindum þess. Spilarar fara með hlutverk Jack Cooper sem þráir ekkert heitar en að stýra einn daginn sínum eigin Titan. Cooper og herdeild hans ráðast inn í plánetuna Typhoon sem er undir stjórn IMC en fljótlega fer allt úr böndunum. Áður en um langt er liðið hefur Cooper fengið tímabundna stjórn yfir BT-7274 og fellur sendiför þess fljótt á herðar Cooper.

 

Cooper kemst fljótlega að því að IMC hafa þróað vopnið Fold Weapon en vopn þetta getur tortímt heilu plánetunum en IMC hyggjast nota vopnið til þess að eyðileggja þær plánetur sem ekki eru lengur undir þeirra stjórn. IMC hafa undir höndunum svokallað Ark en það er eina orkuuppsprettan sem er nægilega megnug til að nota vopnið og hefst því æsispennandi eltingaleikur við að ná þessari orku úr höndum IMC.

 

2

 

Söguþráður leiksins er í styttra lagi en hann spannar aðeins um níu kafla. Kaflarnir eru þó allir hlaðnir hasar og leikurinn heldur spilurum við efnið frá upphafi til enda. Borðahönnunin er til fyrirmyndar þar sem umhverfið reynir á marga þætti þess mikla hreyfanleika sem leikirnir bjóða uppá. Respawn Entertainment gerðu afar vel hér þar sem erfitt er að mynda jafnvægi á milli þess að spilurum finnist eins og  þeir geti ferðast frjálst um í opnum heimi en haldið þeim línulega við söguþráðinn svo hraðinn sem leikirnir eru þekktir fyrir tapist ekki. Umhverfið er einnig ekki síður banvænt þar sem eitur, rafmagn og háar hæðir svo eitthvað sé nefnt geta eins auðveldlega orðið þér að bana og óvinurinn.

 

Án þess að fara mörgum orðum yfir söguþráð leiksins þá er söguþráður leiksins fínasta afþreying, grafík, hljóð og borðahönnun er algjörlega til fyrirmyndar. Söguþráður leiksins er ekki sá dýpsti en færir spilurum heilmikinn hasar sem flestir ættu að hafa gaman af. Leikirnir bjóða uppá hreyfingar og hraða sem ekki allir eru vanir, nema kannski þeir sem hafa spilað síðustu Call of Duty leiki. Mekaníkin í leiknum er þó eins og allt annað í tölvuleikjum, æfingin skapar meistarann og þessi 5-6 klukkustunda langi söguþráður reynist fínasta þjálfun fyrir það sem koma skal, fjölspilun leiksins.

 

3

 

Fjölspilun

Takmarkað val á milli leikjategunda var af mörgum talið halda aðeins aftur af fyrri Titanfall en Respawn Entertainment hafa heldur betur lært af því og bætt um betur í Titanfall 2 þar sem aragrúi af leikjategundum hefur verið bætt við. Finna má allar helstu leikjategundir sem spilarar þekkja vel á borð við Team Deathmatch, Free-For-All og Amped Hardpoint sem er ekki ósvipað Domination en aðeins hægari. Spilarar geta einnig spilað án Titans í Pilots vs Pilots en þeir sem vilja aftur á móti komast beint á Titan geta skemmt sér ágætlega í Last Titan Standing. Attrition snýr aftur en fyrir þá sem ekki spiluðu fyrri leikinn er það leikjategund þar sem spilarar eru 8 gegn 8 ásamt AI karakterum en að drepa þá gefur spilurum og liði þeirra stig.

 

Ein af nýju leikjategundum í Titanfall 2 og mögulega ein sú besta er svo Bounty Hunt. Þar keppast spilarar um að drepa AI fyrir pening og á ákveðnum tímapunktum koma nokkrir bankar þar sem hægt er að leggja inn fjármunina þar til annað liðið vinnur. Það sem gerir leikjategundina svo góða er það að spilarar geta einnig drepið hvorn annan og við það missir sá sem er drepinn alltaf helming af því fé sem hann er með á sér. Til þess að sigra þarf því að koma þetta jafnvægi á hversu aggresíft þú spilar til þess að hala inn fé en á sama tíma þarftu að halda þér eftir bestu getu frá því að deyja til að halda fénu þar til bankinn kemur næst. Algjört öngþveiti getur svo myndast við bankana ef óvinaliðin mætast við sömu útibú eða óprúttnir spilarar sitja um fyrir bönkum óvina sinna.

 

mp1

 

Borðahönnun fjölspilunarinnar er engin undantekning frá söguþræði leiksins, Respawn Entertainment vita hvað þeir eru að gera og koma frá sér vel hönnuðum borðum sem reyna á hreyfanleikann og hraðann sem leikurinn býður uppá. Margir velta eflaust fyrir sér hvernig það er að komast á Titan í leikjum með tilliti til þeirra sem ekki eru á Titan á þeim tímapunkti. Respawn Entertainment hafa haft jafnvægi í huga við gerð leiksins þar sem ekkert færir þér of mikið forskot á andstæðinga þinna nema hæfileiki spilarara almennt. Til þess að mynda þetta jafnvægi er ekki “regeneration” á Titans sem að mínu mati er algjörlega nauðsynlegt svo fyrstu spilarar sem komast á Titan geti ekki haldið hinu liðinu í heljargreipum allan leikinn. Það sem ég á við um mikilvægi jafnvægis er til að mynda þegar sumir Call of Duty leikir hafa misst svolítið sjónar á þessu jafnvægi þar sem annað liðið getur gjörsamlega tortímt hinu með því að verða fyrstir til að fá alltof öflug killstreaks.

 

Það er þekkt vandamál þegar leikir halda verðlaunaþyrstum spilurum ekki við efnið þegar framvinda leiksins er ekki nægilega verðlaunandi eða hættir að gefa af sér of snemma. Flestir kannast við að vera komnir með allt sem þeir þurfa alltof fljótt og finna ekki þörfina til þess að halda áfram á skemmtuninni einni saman. Við viljum mörg hver fá þessa tilfinningu um að við séum að vinna að einhverju, ég þar á meðal og þetta gerir Titanfall 2 ágætlega. Það er stöðugt flæði á nýjungum, misjafnlega merkilegum nýjungum að sjálfsögðu en nóg til þess að þér finnist þú stöðugt vera að vinna að því að eignast eitthvað nýtt.

 

mp2

 

Fyrir þá sem hafa gaman að fyrstu persónu skotleikjum og vilja stíga aðeins út fyrir Battlefield eða Call of Duty þægindarhringinn sinn er Titanfall 2 vafalaust leikur sem þeir ættu að hafa í huga eða einfaldlega bæta honum við. Titanfall serían hefur farið afar vel af stað og miðað við þróunina sem orðið hefur á milli Titanfall og Titanfall 2 verður Titanfall serían vonandi eitthvað sem er komið til að vera enda hafa Respawn Entertainment sýnt að þeir hlusta á samfélagið og bæta úr því sem betur hefði mátt fara í leiknum á undan.

 

Einkunn: ★★★★★★★★½☆ 

– 8,5 af 10 mögulegum.

 

Sérstakar þakkir til Senu fyrir eintak af leiknum.

Höfundur: Steini (Grjoti)