WATCH_DOGS 2

wd2-hulstur

Útgefandi: Ubisoft

Framleiðandi: Ubisoft Montreal

 

Kynning

Eftir atburði Chicago borgar og sögu fyrri Watch Dogs leiksins er ctOS nú komið til San Francisco í uppfærðri útgáfu, ctOS 2.0. Kerfið tengir allt og alla og virkar eins og umfangsmikið eftirlitskerfi sem safnar og greinir upplýsingar notenda þess. Spilarar fara með hlutverk söguhetju leiksins, Marcus Holloway eða Retr0 en hann tekur höndum saman við hakkaragrúppuna DedSec eftir að ctOS 2.0 kerfið gefur honum stöðu grunaðs manns fyrir glæp sem hann framdi ekki. DedSec ásamt Retr0 fara kerfisbundið að vinna að því að afhjúpa vafasama starfsemi Blume (fyrirtækið sem stendur á bakvið ctOS) og birta það borgurum San Francisco sem ekki vita hvernig Blume misnotar gögn um notendur þess í hagnaðarskyni. DedSec með aðstoð Retr0 þurfa nú að sannfæra fólk um að mynda samstöðu gegn Blume en það er eina leiðin til þess að stöðva útbreiðslu ctOS 2.0.

wd2-retro

Spilun

Gríðarlega margt hefur breyst frá Watch Dogs í spilun leiksins. Marcus eða Retr0 hreyfir sig nú allt öðruvísi en parkour kerfi leiksins gefur spilurum töluvert meiri hreyfanleika en fyrri leikurinn bauð uppá. Retr0 notar billiard kúlu í teygju sem melee vopn og geta spilarað nú notað fjöldann allan af kraftmiklum vopnum sem þeir prenta með 3D prentara. Líkt og áður getur Retr0 hakkað sig inn í farartæki, ekki einungis bíla, heldur mótorhjól, fjórhjól, rútur og báta og aksturskerfi leiksins hefur verið gjörbreytt til hins betra. Það er margfalt betra að keyra farartæki í Watch Dogs 2 en Watch Dogs en Ubisoft Montreal fengu Ubisoft Reflections til þess að sjá um að bæta þennan hluta leiksins. Afar sterkur leikur þar sem Reflections færði spilurum ekki verri bílaleiki en Driver leikina hér áður.

Það sem hefur gert gríðarlega mikið fyrir spilun leiksins að þessu sinni er það að Marcus hefur fleiri valkosti um hvað hann ætlar að gera þegar hann hakkar hluti. Á meðan Aiden Pierce gat að mestu bara sprengt upp hluti eða átt við þá á einn hátt getur Retr0 valið á milli nokkurra mismunandi aðgerða. Þetta verður vafalaust til þess að spilarar geti spilað á fleiri vegu en áður. Retr0 hefur þá einnig lítinn fjarstýrðan bíl og dróna til þess að nálgast óvini sína og ætlunarverk sín á mismunandi vegu.

wd2-drone

Ubisoft Montreal hefur bætt úr öllum helstu vandamálum fyrri leiksins en leikurinn varð afar fljótt einhæfur í spilun. Í þetta sinn hefur betur verið gætt að því að hafa fjölbreyttari verkefni og aukaverkefnin ekki stöðugt það sama aftur og aftur líkt og plagar ansi marga sandkassaleiki (e. open world). Húmorinn er einnig ekki langt undan hjá Ubisoft Montreal mönnum en þeir byggðu meðal annars eitt verkefnið á “hataðasta manni internetsins” en þeir sem ekki þekkja til Martin Shkreli ættu endilega að kynna sér það örlítið áður en hafist er handa.

Breytingarnar sem orðið hafa á milli Watch Dogs og Watch Dogs 2 hafa orðið til þess að spilarar geta farið full on GTA mode í gegnum leikinn. Vopnin í leiknum og uppfærslurnar sem nota má uppfærslustig Retr0 í verða til þess að hægt sé að fara í gegnum leikinn skjótandi á allt og alla. Undirritaður mælir þó með að spila fyrstu umferð leiksins með „stealth“ nálgun í huga en það er augljóslega hvernig leiknum er ætlað að spilast. Spilarar fá mun meira úr ætlaðri upplifun leiksins ef spilað er á þennan máta, nýta tæki og tól Retr0 og umhverfið til þess að læðast í gegnum þær hindranir sem á vegi ykkar verða í stað þess að fara auðveldu leiðina.

wd2-shkreli

Uppfærslutré leiksins er stórt og mikið og munu spilarar að öllum líkindum ekki ná að aflæsa þeim öllum við hefðbundna spilun í gegnum sögu leiksins. Gott er því að velja vel og aflæsa uppfærslum sem henta þeim spilastíl sem spilarar vilja temja sér. Spilarar sem elska „grindið“ geta þó stefnt að því að vinna sig í gegnum aukaverkefni til þess að aflæsa öllu mögulegu en þetta ásamt fjölspilun leiksins mun vera veigamesti þáttur hversu lengi leikurinn endist hverjum og einum. Fyrir þá sem fara bara hefðbundna leið í gegnum sögu leiksins geta búist við að leikurinn spanni um 10-15 klukkstundir.

Grafík

Talsvert hefur verið talað um þessi „downgrades“ sem orðið hefur á sumum Ubisoft leikjum í gegnum árin frá kynningu þeirra og myndbrotum að útgáfu leiksins. Að þessu sinni er ég mjög ánægður með grafík leiksins, San Francisco lítur fáránlega vel út (spilað á Playstation Pro í 4K sjónvarpi) og eftir að ég kláraði leikinn prófaði ég að henda Watch Dogs í og munurinn er algjörlega sláandi. Watch Dogs 2 er með fallegri sandkassaleikjum sem eru til í dag og Ubisoft Montreal eiga lof skilið og verður því ekki farið fleiri orðum um það.

wd2-graphics

Fjölspilun

Fjölspilun leiksins hefur fram að þessu verið hans allra stærsta vandamál. Það verður að segjast að Ubisoft hafi skitið rækilega uppá bak þar sem leikurinn hefur verið í höndum spilara í um viku án fjölspilunar. Þetta er svolítið til marks um hversu mikið vandamál það er orðið að leikjaframleiðendur leyfi sér að keyra út ókláraðar eða gallaðar vörur og treysti svo á að plástra leikina á degi eitt. Því það er svo í tilfellum sem þessum þegar ekki tekst að laga vandamálið sem geta orðið leikjaframleiðendum dýrkeypt. Góðu fréttirnar eru þó þær að þeir komu fjölspilun leiksins í gang í gær og virðist að mestu vera að virka vel.

Hacking Invasion snýr aftur þar sem spilarar fá að ráðast inn í heim annarra spilara og reyna að stela af þeim upplýsingum. Þeir sem fá á sig innrás þurfa svo að gera oft örvæntingafulla leit að þeim sem ráðist hafa þar inn. Vandamálið við Hacking Invasion er að ekkert kerfi hindrar það að þú ráðist inn í leiki til spilara sem eru í burtu en það gerist mjög reglulega. Einnig hefur verið örlítið ójafnvægi á Hacking Invasion vegna þess að töluvert auðvelt er að finna þá sem ráðast inn í heiminn hjá þér með því að skanna yfir svæðið með drónanum til dæmis. Þetta er þó eitthvað sem Ubisoft menn hafa gefið út að þeir séu að fara að laga.

wd2-mp

Afar skemmtileg viðbót við fjölspilun leiksins er þó Bounty Hunter en þar geta spilarar annað hvort verið kötturinn eða músin. Spilarar geta valið að vera sá sem lögreglan og ákveðinn spilari eiga að eltast við með því að falsa sönnunargögn gegn sér. Til þess að vinna þarf að drepa þann spilara sem kemur á eftir þér og svo flýja undan yfirvaldinu. Ef spilarar hinsvegar fara að elta uppi aðra spilara þurfa þeir einungis að finna hann og drepa. Miðað við tímann sem tekur að finna einhvern til þess að eltast við í pörun (e. matchmaking) og tímann sem tekur að fá spilara á eftir sér virðast mun fleiri sækjast í það að elta aðra. Þannig að vandamálið er í augnablikinu hversu erfiðlega gengur stundum að finna einhvern til þess að elta uppi, hver svo sem ástæðan fyrir því er.

Það getur þó verið mjög skemmtilegt að spila á báða vegu og fáránlegustu aðstæður sem spilarar geta verið búnir að setja upp þegar maður kemur á eftir þeim. Einn spilari var til að mynda búinn að fylla bílskúr af bílum, klöngraðist svo yfir bílana inn í hornið á bílskúrnum og reyndi svo eftir fremsta megni að halda hurðunum að skúrnum lokuðum. Þegar ég mætti svo á svæðið var lögreglan búin að hrúgast fyrir utan skúrinn og hann þar inni og líklegast ekki búinn að hugsa þetta mikið lengra. Ég gerði svo spilurum lífið leitt í hlutverki glæpamannsins með því að setja upp bílaeltingarleiki þar sem ég leyfði þeim að hafa aðeins fyrir því að finna mig. Eða jafnvel búinn að koma mér fyrir uppi á háu þaki og fela lyftarann á svæðinu. Möguleikarnir eru endalausir, ég hugsa að ég reyni að setja upp einhvern bátaeltingaleik næst.

3111068-wd2_screen_sailing_race_gc_170816_920am_1471366594

Fjölspilun leiksins er hin besta skemmtun ef spilarar geta fundið sér skemmtun í þeirri fjölbreyttu nálgun sem Bounty Hunter býður uppá. Bounty Hunter mun að öllum líkindum vera það sem sker úr um hversu lengi Watch Dogs 2 endist þér þegar þú hefur lokið sögu leiksins.

 

Lokaorð

Watch Dogs 2 er betri á nær alla vegu en Watch Dogs, söguþráður leiksins er ekki sá dýpsti en spilun leiksins er komin á allt annað plan en áður. Grafíkin í leiknum er einnig til fyrirmyndar sem og hönnun San Francisco borgar en spilarar geta nú ferðast um borgina nýju og betra aksturskerfi og möguleikarnir í stjórna umhverfinu eru mun fleiri en áður.

Nýja Bounty Hunter leikjategundin þar sem spilarar geta tekist á í löggu og bófa getur verið heilmikil skemmtun en spilarar geta dundað sér við að setja aðra spilara í fáránlegustu aðstæður og eltingaleiki.

Watch Dogs 2 er í heildina frábær skemmtun sem allir helstu aðdáendur sandkassaleikja ættu að kíkja á við tækifæri.

Einkunn: ★★★★★★★★½☆ 

– 8,5 af 10 mögulegum.

Kærar þakkir til Myndform fyrir eintak af leiknum.

Skrifað af Steini (Grjoti).