Resident Evil 7: Biohazard

 

Resident Evil 7: Biohazard

Framleiðandi: Capcom

Útgefandi: Capcom

 

Resident Evil seríuna þarf varla að kynna fyrir nokkrum manni en Capcom hafa fært okkur vel yfir 20 leiki á rétt rúmlega 20 árum en fyrsti Resident Evil leikurinn kom út árið 1996. Resident Evil kvikmyndirnar eru einnig orðnar sex þar sem nýjasta og vonandi sú síðasta var frumsýnd nú í lok síðasta árs. Kvikmyndirnar eru lítið annað en hvert sorpið á fætur öðru og svo virtist sem að síðustu ár hafi Capcom ætlað að fara eins með leikjaseríuna góðu. Árið 2012 kom Resident Evil 6 út og markaði endalok samferðar minnar og Resident Evil leikjanna, að ég hélt, þar til ég sá fyrstu myndbrot úr Resident Evil 7: Biohazard.

 

RE7 er fyrsta megin inntak seríunnar (þ.e. af númeruðu leikjunum) sem spilast í fyrstu persónu. Þörf breyting þar sem spilunin og hreyfingarnar í RE5 hafa ekki verið að eldast nægilega vel. Fyrstu persónu spilun fer svona leikjum yfirleitt aðeins betur þar sem það minnkar sjónsviðið töluvert og meiri líkur á að eitthvað óvænt læðist aftan að þér. Leikurinn er svo spilanlegur með VR sem er vafalaust áhugavert upplifun fyrir þá sem eiga svoleiðis nú þegar. Aðrir kostir leiksins eru þeir að með svo gamla leikjaseríu er ómögulegt fyrir allar kynslóðir leikjaspilara að hafa fylgt seríunni eftir frá fyrsta leik svo söguþráður leiksins er þess eðlis að hver sem er getur hafist handa án þess að vita nokkuð um forsögu leikjanna.

 

 

RE7 hefst þar sem maður að nafni Ethan Winters er á leið á eyðibýli nokkurt í leit að Miu eiginkonu sinni en hún hefur verið týnd síðustu þrjú árin. Það eina sem hefur leitt Ethan á slóðir Miu er myndband þar sem hún biður hann sérstaklega um að gleyma sér og leita alls ekki að henni. Hvarf Miu og myndbandið sem hún sendi honum verður til þess að Ethan vill ólmur komast að því hvað raunverulega kom fyrir og hvað hafi orðið af eiginkonu hans. Fljótlega eftir að Ethan kemst á slóðir Miu kemur í ljós að fjöldamörg dularfull mannshvörf hafa orðið á svæðinu og eitthvað verulega furðulegir hlutir fara að eiga sér stað.

 

Capcom virðast loksins hafa hlustað á kvartanir aðdáenda leikjanna og það er þetta gamla rólega en drungafulla andrúmsloft þar sem spilara vita aldrei hvað bíður þeirra. Síðustu leikir einkenndust af meiri hasar og minni hrylling en ég tel að leikirnir séu bestir í þessum hryllings- og exploration flokki þar sem maður á alltaf bara rétt nóg til þess að komast lifandi í gegnum næstu hindranir leiksins. Capcom ná að halda manni á tánum og eiga nokkur góð augnablik þar sem mér dauðbrá og þrautirnar sem leikurinn leggur fyrir þig krefst þess oft að þú þurfir að ganga um hvern krók og kima til þess að finna það sem kemur þér áfram.

 

 

Það er orðið talsvert til ama að leikir í dag séu oft of stuttir eða innihaldi of lítið efni til þess að réttlæta verðlagningu þeirra. Innihald leikja fer minnkandi en verðið hækkandi. Þeir sem hafa kynnt sér leikinn vita eflaust að það sé hægt að hlaupa í gegnum hann á 2-3 klukkustunum en það er bara þegar spilarinn getur leyst allar þrautir og fundið allt sem honum vantar og hlaupið framhjá nánast öllum óvinum leiksins frá byrjun til enda. RE7 endist í góða 8-15 tíma fyrir þá sem eru að spila hann í fyrsta skiptið. Þeir sem eru einstaklega varfærir geta verið að taka sér um og yfir 20 klukkustundir við fyrstu spilun.

 

Söguþráður leiksins er ágætur og getur endað í raun á tvo vegu eftir ákveðnu vali söguhetjunnar en þessi skipting er ekki nægilega mikil til þess að réttlæta það að spilarar spili leikinn strax aftur annað en bara að endurtaka blálok leiksins með því að geyma eitt vel valið save. Ending leiksins er því ekkert gríðarlega mikil nema fyrir þá spilara sem gera sér sport úr því að reyna að slá hraðamet í leiknum, eitthvað sem margir YouTube spilarar eru að gera þessa dagana. Capcom ætla sér þó að gefa út eitthvað frítt aukaefni (Not a Hero – sem verður nýr sögukafli) en þegar hefur verið gefið út aukaefni fyrir leikinn sem áhugasamir geta keypt aukalega.

 

 

Grafík leiksins er fín og í augnablikinu eru Playstation Pro spilarar þeir einu sem geta fengið að upplifa leikinn í 4K en hann styður bæði 4K og HDR möguleika fyrir þá leikjavél. En það er þó hljóðið sem raunverulega fangar andrúmsloftið og spennuna sem þú finnur fyrir í gegnum leikinn. Borðahönnunin og lýsingin spila líka stóru hlutverki en reglulega heyra spilarar ýmis óhljóð ýmist fyrir ofan sig, neðan sig, eins og einhver sé fyrir aftan þig. Oft reynist það rétt og eitthvað stekkur aftan að þér en önnur skipti færðu að ráfa um horfandi í kringum þig í allar áttir og búast við því versta. Allt á meðan þú reynir að finna vísbendingar um hvernig þú kemst í gegnum þessar luktu dyr sem halda þér frá því að komast burt.

 

 

Þar sem Ethan er óbreyttur borgari og ekki þrautþjálfaður sérsveitarmaður eins og við erum vön að hafa okkur innan handar þá getur hann ekki barist án þess að hafa eitthvað vopn. Sem er einstaklega ánægjulegt þegar eitthvað viðrini er hlaupandi á eftir þér. Verið óhrædd þó því Ethan finnur ýmis vopn, getur varist til þess að lágmarka skaðann og snúið sér í 180 gráðu hring til þess að forðast óvini eða taka við þeim sem koma aftan að honum. Leikurinn verðlaunar þá spilara sem skoða sig um og finna hluti sem ekki öllum er ætlað að finna. Hafið þetta í huga þegar þið finnið antique coins og finnið út hvernig þeir gagnast ykkur síðar í leiknum.

 

 

 

Allt í allt er RE7: Biohazard fínasta viðbót við seríuna, kærkomin viðbót sem rífur hana aftur í gang frá þessari lægð sem legið hefur yfir henni eftir hinum fínasta leik RE4. Leikurinn er langt frá því að vera fullkominn en nokkuð örugg skemmtun fyrir þá sem hafa gaman að hryllings- og bregðuleikjum og vilja hafa örlítið fyrir því að leysa þrautir eða finna hlutina. RE7 er vonandi skref í rétta átt og að Capcom haldi áfram að vinna með það sem virkaði vel í þessum leik og taki nokkur skref frá hasarnum sem einkenndi t.d. RE5 og RE6 og rati aftur á sinn heimavöll, hryllinginn.

 

Einkunn: ★★★★★★★½☆☆ 

                    7,5 af 10 mögulegum.

Kærar þakkir til Senu fyrir eintak af leiknum.

 

Skrifað af Steina (Grjoti).