For Honor

 

Útgefandi: Ubisoft

Framleiðandi: Ubisoft Montreal

 

Saga

Söguþráður For Honor er í raun eins og löng kynning á spilanlegum karakterum leiksins og kennsla á bardagakerfi leiksins. Sagan hefst þannig að Apollyon nokkur, stríðsóður riddari söðlar undir sig eina af harðari fylkingum riddara, Blackstone Legion og nýtir hóp þennan til þess að skapa glundroða og eilíft stríð meðal manna. Apollyon ræðst meðal annars að víkingum og brennir til að mynda nær allar vistir þeirra í von um að brjóta samstöðu þeirra svo þeir snúist gegn hvor öðrum. Til þess að gera langa sögu stutta verður þetta til þess að víkingarnir ráðist meðal annars að samurai fylkingunni og áður en um langt er liðið eru allir byrjaðir að berjast gegn hvor öðrum.

 

 

Söguþráður leiksins spannar um fimm til átta klukkustundir en veltur þó aðallega á getu hvers og eins og því erfiðleikastigi sem hver velur sér. Realistic erfiðleikastigið er það þyngsta og er í raun þokkalega þægilegt fyrir alla ágæta spilara kannski fyrir utan einstaka endakalla. Söguþráðurinn inniheldur 18 borð eða sex fyrir hverja fylkingu, riddara, víkinga og samurai. Söguþráðurinn er fínasta afþreying en ég myndi ráðleggja öllum að kíkja að minnsta kosti eitthvað í hann eða í Practice og Advanced Practice undir How to Play áður en haldið er inn í miskunnarlausa fjölspilun leiksins. „The Art of Battle“ bardagakerfið er ekki eitthvað sem þið komið til með að nota án vandkvæða eftir tvo til þrjá PvP leiki. Ekki sakar svo spilarar geta tekið höndum saman, tveir og tveir og verið samferða í gegnum sögu leiksins.

 

Fjölspilun

For Honor er online only leikur og því þurfa spilarar að vera stöðugt tengdir til þess að spila efni leiksins, þó spilarar ætli sér ekki í annað en söguþráð hans. Það er stundum erfitt að botna í því af hverju leikjafyrirtæki krefja spilara um að vera tengda þegar þeir eru að spila í gegnum eitthvað sem gæti allt eins verið offline efni. En eftir að hafa spilað leikinn frá fyrstu degi og eitthvað nær alla daga síðan þá, með yfir 100 leiki á bakinu hefur P2P kerfi leiksins verið að virka mjög vel. Pörun (e. matchmaking) tekur aldrei yfir 30 sekúndur og ég hef ekki ennþá spilað sjáanlega laggandi leik. Það er þó þannig með P2P tengingar að þegar hýsill lætur sig hverfa stöðvast leikurinn í tvær til þrjár langar sekúndur og hefst svo aftur þetta gerist sem betur fer ekki það oft. Líklegast þar sem pörun leiksins er nokkuð góð og reynir eftir fremsta megni að para saman svipaða hæfni og bestu mögulegu tengingu. Til allrar hamingju gefur pörunin svo eftir í hæfni en reynir áfram að finna bestu mögulegu tengingu fyrir leikinn, líklega er það vegna þessa sem að For Honor er einn stöðugasti online only leikur sem ég hef spilað síðustu ár sem day one spilari en fyrstu dagarnir reynast Ubisoft og EA oft erfiðir.

 

 

Ef við snúum okkur að fjölspilun leiksins þá skiptast fylkingar leiksins í riddara, víkinga og samurai. Undir hverri og einni fylkingu eru fjórir spilanlegir karakterar, þar er 12 í heildina. Fyrsti flokkurinn nefnist vanguard og er „all-round“ karakter, næsti er heavy og slær þyngri höggum, þolir meira en er hægari en hinir, næst er assassin, liprastur af þeim öllum, hraðari en þolir minnstan skaða. Síðast en ekki síst er hybrid, flóknastir að stjórn en þeir eru með lengra „range“ en hinir og sá eini sem gerir „damage over time“ áfram eftir höggin. Level kerfi leiksins er aðeins frábrugðið öðrum leikjum þar sem spilarar koma til með að þurfa að vinna hvern og einn karakter upp. Fyrir hver 20 level endurræsist allt, ekki ósvipað „prestige“ í CoD en í For Honor bætist „base stats“ karaktersins við hvert „prestige“ og hann hefur möguleikann á að bera betra og sjaldgæfari brynjur og vopn.

 

 

For Honor verðlaunar spilara eftir hvern leik með reynslustigum, möguleikanum á nýjum vopnum eða hluta af brynju og gjaldmiðli leiksins, stáli. Stálinu er deilt nokkuð sparlega út þar sem markmiðið er líklegast að hvetja spilarar til þess að kaupa það aukalega í Playstation versluninni. Ég gagnrýna þetta ef þetta hefði mikil áhrif á framvindu leiksins eða gæfi öðrum spilurum eitthvað forskot. Staðreyndin er sú að allir eiga svipaða (næstum því..) möguleika á því að eignast gott gear í leiknum, ekki velta fyrir þér emotes og útlitstengdu rugli, ekki eyða stálinu fyrr en í fyrsta lagi eftir þriðja prestige því þá geturðu fengið fjólubláa hluti (heroic) úr hverju premium kassa sem þú kaupir fyrir 500 einingar af stáli. Notið frekar stálið þangað til í að kaupa „champion status“ sem gefur auka 25% í x marga daga þar til einhver uppáhalds karakterinn er kominn í prestige þrjú. Á meðan spilarar geta ekki verslað sér forskot á aðra spilara er þetta eitthvað sem er til mikilla vandkvæða.

 

Leikjategundir For Honor eru fimm talsins og allar spilanlegar gegn öðrum spilurum (PvP) eða gegn AI fyrir þá sem vilja kynnast leiknum aðeins betur áður en haldið er á vígvöll hinna reynslumeiri. Góður valkostur fyrir þá sem þurfa aðeins meiri æfingu en söguþráð leiksins. Einvígi (e. duel) er fyrstu upp í þrjá sigra einn gegn einum, hér vinnast vafalaust sætustu sigrarnir því hér veltur allt á þér sjálfum og engum öðrum. Brawl er svo tveir gegn tveimur og geta af sama skapi verið nokkuð skemmtilegir leikir og fátt jafn skemmtilegt og þegar maður endar einn gegn tveimur og ber sigur úr býtum. Stærri leikjategundir For Honor eru Dominion þar sem keppst er um A, B og C svæði vígvallarins og svo tvær tegundir af Deathmatch, Elimination og Skirmish en allar stærri leikjategundir eru fjórir gegn fjórum. Það ætti því að vera eitthvað fyrir alla, þrátt fyrir að hafa sjálfur legið löngum stundum í Elimination og Skirmish er þetta einn af fáum leikjum sem ég hef flakkað nokkuð jafnt á milli leikjategunda.

 

 

Eftir hvern leik geta spilarar svo tekið þátt í stríði fylkinganna en í upphafi leiks velur hver og einn sér þá fylkingu sem hann ætlar að styðja. Val hvers og eins hefur engin áhrif á karaktera leiksins, allt stendur ennþá til boða. Eftir hvern leik (sigur eða tap) getur maður sent liðsauka á ákveðna reiti stríðsborðsins, bæði til þess að verjast hinum fylkingunum eða sækja á svæði þeirra. Hversu mikinn liðsauka þú sendir hverju sinni, nefnt „war assets“ veltur á því hversu vel þú stóðst þig í leiknum sem þú varst að ljúka. Í raun breytir þetta litlu fyrir daglega spilun leiksins en í lok hverrar lotu fá sigurvegararnir einhver verðlaun. Íslendingar leggja væntanlega sitt af mörkum til þess að tryggja víkingum sigur.

 

 

Þá kemur að því sem gerir For Honor að því sem hann er og það er bardagakerfi leiksins sem nefnist „The Art of Battle“ en bardagakerfið á sér enga hliðstæðu. Epic Games þróuðu kerfið sérstaklega fyrir leikinn og hefur tekist algjörlega frábærlega vel til þar sem bardagakerfið gerir spilun leiksins að algjörri unun. Í stað þess að hafa block takka ferðu í svokallað „guard mode“ og þarft svo að velja þá stöðu (e. stance) sem þú tekur þér, hvort sem þú ætlar að berja frá þér eða verjast höggi muntu þurfa að hugsa um hvort þú ætlir að gera það frá hægri, vinstri eða fyrir ofan höfuð. Bardagakerfið býður svo upp á létt og þung högg, verjast, víkja sér undan, standa af sér höggin, spilarar geta tvinnað saman árásir sem eru óverjanlegar og margt fleira. Button mashers og þeir sem hafa enga sérstaka trú á því að verjast í leikjum sambærilegum þessum geta skemmt sér konunglega við að deyja, aftur og aftur og aftur og aftur. Þeir sem koma til með að ná góðum tökum á öllum þeim hreyfingum sem kerfið býður uppá eiga eftir að leika sér að þeim sem gera það ekki. Þess vegna legg ég áherslu á að rúlla í gegnum söguna og fara í Practice og Advanced Practice til þess að leggja grunninn að árangursríkum bardagastíl. Þegar þið farið að ná góðum tökum á „The Art of Battle“ verður spilun leiksins algjör unaður.

 

 

Auk þess skartar For Honor ágætis grafík og borðahönnun sem fer leikjategundunum vel, high og low ground, hindranir hér og þar og ýmsar hættur sem spilarar geta nýtt sér til þess að binda skjótann enda á líf óvinna sinna. Verið meðvituð um umhverfi ykkar, ef ekki, þá flýgurðu fram af næstu brú eða færð 150 kílóa hlunka hoppandi yfir þig. Allt í allt er For Honor frábær skemmtun, fjölspilun sem skartar einhverju best hannaðasta bardagakerfi sem ég hef nokkurn tímann notað en Ubisoft Montreal hafa staðið vel undir þeim væntingum sem gerðar voru til leiksins. Söguþráður For Honor er kannski ekki sá sterkasti en reynist ansi góð upphitun og þjálfun fyrir það sem leiknum er ætlað að vera, fyrsta flokks fjölspilun. Þar stendur For Honor ansi mörgum framar og er leikur sem enginn hack and slash aðdáandi ætti að láta framhjá sér fara.

 

Einkunn: ★★★★★★★★½☆ 

                    8,5 af 10 mögulegum.

Kærar þakkir til Myndform fyrir eintak af leiknum.

 

Skrifað af Steina (PSN: thorsteinnvh)