Tom Clancy’s Ghost Recon: Wildlands

 

Framleiðandi: Ubisoft Paris

Útgefandi: Ubisoft

Útgáfudagur: 7. mars 2017

Leikurinn var spilaður á Playstation 4 Pro.

 

Saga leiksins á sér stað um mitt sumar í Bólivíu árið 2019. Santa Blanca glæpagengið hefur söðlað undir sig völdum og gert kókaín að stærstu framleiðslu- og útflutningsgrein landsins. Þegar áhrif þess fara að dreifa sér víðar um heiminn fara Bandaríkjamenn að skipta sér af. Til þess að gera langa sögu stutta fer allt í háaloft þegar sprengja springur í sendiráði Bandaríkjanna í La Paz í Bólivíu og DEA útsendara er rænt, hann pyntaður og að lokum myrtur. Við þetta mynda CIA, DEA og JSOC sameiginlega aðgerð sem nefnist “Operation Kingslayer” og fá til liðs við sig fjóra þrautþjálfa sérsveitarmenn Ghosts sveitarinnar en markmið hennar er að taka niður helstu innviði Santa Blanca og fjarlægja að lokum höfuðið, El Sueño.

 

Ubisoft hafa stært sig mikið af hversu stórum heimi Wildlands kæmi til með að skarta og sömuleiðis heim af endalausu gamani og af hlutum til þess að gera og dunda sér við. Það verður ekki frá þeim tekið að hið fyrra, stóðu þeir 100% við. Heimurinn í Wildlands nær yfir alveg gríðarlega stórt landsvæði sem tekur tugi klukkustunda að komast í gegnum við spilun leiksins. En er stærra alltaf betra? Í þessu tilfelli er svarið því miður einfaldlega nei. Wildlands lendir í gríðarlegum vandræðum með að vera með aðlaðandi (e. engaging) hluti til þess að halda þér við efnið í svona langan tíma og fellur því miður of mikið í endurtekningar sem er einhver helsti óvinur opinna sandkassaleikja. Stærðin skiptir mann engu máli ef leikurinn er stöðugt að færa þær svipaða hluti í örlítið breyttu landslagi.

 

 

Byrjum á byrjuninni. El Sueño er höfuð Santa Blanca, undir honum eru fjórir einstaklingar sem hver fer fyrir mikilvægum hluta starfseminnnar, öryggismálum, áhrifum, framleiðslu og dreifingu. Undir hverjum þeirra fjögurra yfirmanna eru fimm til sex undirmenn. Til þess að nálgast marga þeirra (ekki hvern einn og einasta) þarf að klára fjórar til sex sendiferðir (e. missions) sem iðulega eru byggð upp á nákvæmlega sama hátt. Hljómar spennandi ekki satt? Við erum yfirleitt með einhverja upplýsingaöflun, nálgast einhvern og yfirheyra hann, eyðileggja eitthvað eða einhverja starfsemi, læðast eftir gögnum og að lokum drepa þann sem er yfir. Landsvæðinu í Wildlands er skipt upp í 21 landsvæði og spilarar eru að fara að gera nánast það nákvæmlega sama í þeim flestum með smávægilegum aðlögunum að þunnri sögu leiksins.

 

 

Síðast en ekki síst þá skartar Wildands þó nokkrum sendiferðum sem hafa einhverja leiðinlegustu mekaník sem þekkist í tölvuleikjum. Stealth insta-fail borðum sem gera það að verkum að það skiptir engu máli hvernig þú tæklar þau, þú ert að fara að tapa þeim aftur og aftur og aftur þar til að það sem þú ert búinn að gera 10x heppnast allt í einu. Það breytir engu máli þó gaurinn sem kemur auga á þig læðast um sé drepinn langt áður en hann nær að ulla út úr sér einhverri tegund viðvörunar og allt “notoriety” sé farið þá tapast borðin samt. Ég hélt að þessar tegundir borða heyrðu sögunni til eftir allt hatrið sem leikjaframleiðendur hafa fengið í gegnum árin sem hafa verið að misbjóða spilurum með þessum borðum.

 

Í Wildlands þá geta spilarar spilað í gegnum leikinn hvernig sem þeir vilja. Hvernig þú nálgast hverja sendiferð. Hvert þú ferð um landsvæðið í leiknum. Þú getur byrjað á erfiðari svæðunum (þeim sem eru í raun ætlað að koma síðust) fyrst og endað á þeim léttustu. En þetta skiptir í raun og veru engu máli þegar öllu er á botninn hvolft því hvert svæði virkar nánast nákvæmlega eins í spilun, það eina sem virðist breyta er hversu mikilli mótspyrnu þú mætir og hversu erfið þau eru í spilun en ekki hvað þú ert að gera eða hvernig verkefni þú átt að leysa.

 

 

Við spilun leiksins geturðu aflæst ýmsum hæfileikum og bætt þá. Ef við horfum til The Division þá voru bæði passífir og aktífir hæfileikar sem létu spilara einnig velja á milli og höfðu þá mikil áhrif á spilunarstíl þeirra og hvernig hlutverki þeir gengdu í liðinu sínu. Þetta er eitthvað sem ég hefði viljað sjá í Wildlands líka. Allir endanlegir aflæsanlegir hæfileikar eru passífir og alltaf í gangi og ekkert val sem hefur mikil áhrif á hvernig þú kemur til með að spila. Þetta verður til þess að það er ekki eins mikið kappsmál að aflæsa neinu sérstöku eða vinna að einhverjum langþráðum viðbótum í gegnum framvindu leiksins. Þú getur einfaldlega valið það sem gagnast þér mest og aflæst því en það kemur ekki til með að hafa nein frekari áhrif en að gefa þér aukin þægindi eftir því sem leikurinn verður erfiðari í spilun.

 

Í Wildands má ferðast um á flugvélum, þyrlum, bílum, mótorhjólum og öðrum ferðakostum en það munar talsvert um þessa möguleika en þetta mátti meðal annars ekki finna í The Division (þó það var kannski frekar efni sögu leiksins sem hamlaði það en nokkuð annað). Þessir fjölbreyttu fararkostir gera það vissulega að verkum að fjölspilun leiksins verður skemmtilegri. Félagar sem eru að spila saman geta farið að leika sér við að nálgast borðin á ýmsa vegu og þetta er í raun það sem Wildlands gerir ágætlega. Fjölspilunin í leiknum getur verið skemmtileg. Ég ætla að ganga svo langt að segja hana nauðsynlega því þá er að minnsta kosti hægt að fara fjölbreyttari og skemmtilegri leiðir í gegnum annars einhæfa framvindu leiksins. Þó hefur verið nokkur óánægja með hvernig það er að keyra bíl í Wildands en bílarnir eru eins og þeir séu stöðugt að keyra um í léttri ísingu á köldum vetrarmorgni í Reykjavík, renna alltaf aðeins til. Sem er frekar furðulegt í sólinni í Bólivíu. Það breytti mig þó litlu, letinginn ég reyndi að fljúga allt sem ég gat flogið og ég keyrði í mesta lagi upp að næstu þyrlu eða flugvél sem ég fann til þess að fljúga svo þaðan.

 

 

Ef við færum okkur út í aðeins jákvæðari atriði varðandi Wildlands þá er grafíkin vissulega góð. Hið ógnarstóra landsvæði Bólivíu er glæsilegt að sjá og hönnun þess eflaust verið útkoma gríðarlegrar vinnu. Borðahönnun og landsvæði eru s.s. til algjörrar fyrirmyndar. Það sama má segja um skotvopna mekaníkina. Það er gaman að geta skipt út einstaka pörtum og fiktað við samsetningu vopnanna til þess að fá mismunandi hluti úr þeim við spilun leiksins. Leikurinn styður HDR litatæknina sem mörg ný sjónvörp hafa en Wildlands er einnig með 4K stuðning fyrir Playstation Pro eigendur.

 

Eins og áður sagði er fjölspilun eitthvað sem allir þeir sem ætla sér að spila leikinn ættu að hafa ofarlega í huga. Ef þeir hafa engan til þess að spila með þá mæli ég með því að fara í það minnsta í slembi-raða fjölspilun og flakka á milli þar til þeir finna sér skemmtilegan hóp. Hérna er það afar góður kostur að þú getur spilað leikinn frá hvaða enda sem þér hugnast. Ef þú ert að detta inn í mismunandi hópa af fólki þá skiptir ekki neinu máli hvar þeir eru að spila eða hvaða borð þeir eru að klára þá mun það alltaf henta þér líka. Fjölspilunin virkar líka frábærlega, engin vandamál með tengingu eða pörun og þetta er eitthvað sem Ubisoft virðast hafa verið að gera mjög vel í Wildlands og The Division og skiptir gríðarlega miklu máli þegar fjórir einstaklingar eru að spila saman í gegnum sögu leiks. Þó eins og með í For Honor og Rainbow Six: Siege þá er einhver hluti fólks að lenda í vanda sem er með NAT strict net, Ubisoft hefur verið að vinna í að bæta úr því.

 

 

Ef við endum þetta á því að fara yfir kosti og galla leiksins. Fjölspilunin getur verið ansi skemmtileg, góður hópur með nóg fyrir stafni og mikið frelsi í gríðarlega stóru borði getur verið ansi gott combo. Hinsvegar verður endurtekning eftir endurtekningu og þunn saga að mikilli meinsemd í Wildlands og fyrir spilara sem eru að fara einir í gegnum leikinn gæti þetta orðið til þess að margir gefist upp á miðri leið. Ending leiksins er gríðarleg en það tekur tugi klukkustunda að klára leikinn frá byrjun til enda að því gefnu að einhver tími fari í dund og að skoða sig um svæðið. Hvort það geti talist sem kostur eða galli veltur á hversu skemmtilegur leikurinn er fyrir hverjum og einum hvort það sé gott að hann endist eins lengi og hann gerir eða hvort það sé kvöð að komast alla leið að endastöð. Wildlands er leikur sem lofaði gríðarlega góðu en metnaður Ubisoft Paris í að skila stærsta opna heimi í sögu fyrirtækisins er nákvæmlega það sem verður þeim að falli og það er að vera ekki með nægilegt efni til þess að bera stærðina. Það er ekki nóg að hafa eitthvað að gera í 40-50 klukkustundir það er að hafa eitthvað skemmtilegt fyrir stafni í allan þennan tíma. Persónulega tek ég 10-15 tímum af hreinni skemmtun fram yfir 40-50 klukkustundir af endurtekningum.

 

Einkunn: ★★★★★★¾☆☆☆ 

                    6.8 af 10 mögulegum.

Kærar þakkir til Myndform fyrir eintak af leiknum.

 

Steini (PSN: thorsteinnvh)