10 ára afmæli www.psx.is og PlayStation 3

Það er sérstakt að hugsa til þess að í dag þann 23. mars 2017 eru komin 10 ár síðan að PlayStation 3 leikjavél Sony kom út í Evrópu. Hún hafði komið út í Nóvember 2006 í Japan og N-Ameríku, en Evrópa og Ástralíu þurftu að bíða nokkra mánuði í viðbót.

Þessi dagsetning er líka frekar merkileg fyrir mig, Emil (Emmi) og Trausta (ArgoNut) sem stofnuðum vefsíðuna www.psx.is þann dag og var áætlun okkar að koma með umfjöllun um allt tengt PlayStation hér á landi og koma með fréttir og umfjallanir um tölvuleiki. Það var eitthvað sem hafði ekki mikið verið gert áður hér að landi að viti og óðum við frekar blint í þetta saman félagarnir.

Hér fyrir neðan eru nokkrar af þeim greinum sem við birtum um það leyti sem síðan fór í loftið.

Xbox 360 Vs. Playstation 3 – Samanburður og reynsla mín á báðum vélunum

20 frábær ráð fyrir Playstation 3

Resistance: Fall of Man

Motorstorm

Formula One Championship Edition

Genji: Day of the Blade

Ég man vel eftir að hafa farið í BT í skeifunni og verslað mér PlayStation 3 vélina og spreðað talsvert yfir 100 þúsund í vélina og auka hluti. Síðan var haldið heim til systur minnar þar sem ég var í heimsókn og stungið vélinni strax í samband og kíkt á Motorstorm og Resistance áður en var haldið heim norður daginn eftir.

Einn mjög glaður að vera komin með gripinn á sínum tíma 🙂

Það voru ótal góðir tímar sem voru eftir þetta og með PlayStation 3 vélinni og X-360 árið á undan þá var háskerpu byltingin hafin fyrir leikjaunnendur og kvikmyndir á Blu-Ray.

Á sama tíma byrjuðum við að vinna með PSX.is síðuna og birta fréttir, greinar, leiki ofl og horfðum á síðuna vaxa og dafna með hjálp notenda síðunnar. Margt hefur breyst á þessum 10 árum frá byrjun síðunnar og PS3. Rumble var ekki málið hjá Sony í byrjun, en það breyttist síðar, Sony byrjaði mjög brösulega og átti í erfiðri baráttu við X-box 360 vél Microsoft og vinsældir hennar. Með tímanum þá tók Sony sig á og hlutirnir breyttust mikið, ekki sakaði þegar við byrjuðum að fá leiki eins og Uncharted, Metal Gear Solid 4: Gun’s of the Patriots, God of War 3, inFamous, Ratchet & Clank Future: A Crack in Time, Valkyria Chronicles, Journey, LittleBigPlanet, Heavy Rain, Demon’s Souls, Killzone 2 og The Last of Us á meðal annarra.

Hverjar eru ykkar minningar af útgáfu PlayStation 3? Fenguð þið ykkar hana í byrjun eða síðar? Hvað var spilað fyrst?

Blessaða PS3 vélin mín á myndinni að ofan er ekki lengur meðal vor, fékk „Yellow light of death“ einhverjum árum síðar og var svissað út fyrir PS3 Slim. PlayStation 4 kom og leysti PS3 af í ársbyrjun 2014 hér á landi.

Gamli „gráni“ skilaði sínu vel á þeim tíma sem hún lifði. Hef ekki kunnað við að fleygja henni.

Bransinn hefur að einhverju breyst með tilkomu Facebook og Youtube og hvernig umfjöllun er í gangi núna. Við höfum víkkað svið okkar og erum nú á Facebook og Twitter á meðal annara hluta og höldum áfram að fjalla um leiki og bransann og stefnum að gera það áfram.

Okkur langar að þakka fyrirtækjum eins og Sena, Myndform, Gamestöðinni, Bt ofl fyrir samstarfið í gegnum árin.

Kveðja; Bumbuliuz, Emmi, ArgoNut, Steini og allir aðrir pennar ofl sem hafa komið að vinnu að síðunni þessi 10 ár.