Assassin’s Creed: Syndicate

91bwrpAVcOL._SL1500_

 

Kynning:

Enn eitt árið og enn einn Assassin‘s Creed leikur frá Ubisoft, verður þessi betri en Assassin‘s Creed: Unity eða mun hann halda áfram niðursveiflu seríunnar?

Unity var fyrsti leikurinn til að koma út á nýjan vélbúnað í fyrra og á sama tíma fengu eldri vélar Assassin‘s Creed: Rogue sem hélt áfram ævintýrunum á tímabili Assassin‘s Creed III. Þeir sem spiluðu þá báða komust að því að sá sem var gerður fyrir eldri vélar reyndist á margan hátt betri leikur.

Það var líklega frekar grátlegt fyrir Ubisoft að fréttir af Syndicate, eða eins og hann var kallaður, Assassin‘s Creed: Victory láku út í byrjun Desember í fyrra nokkrum vikum eftir útgáfu Unity. Á þeim tíma átti Unity í talsverðum tæknilegum vandræðum sem voru síðar lagfærðar enn urðu til þess að Ubisoft saltaði vinnu við nýtt DLC og gaf eina pakkann Dead Kings frían til fólks í sárabætur.

Eftir strembið ár þá verður forvitnilegt að sjá hvort að Ubisoft Quebec getur komið seríunni á rétta leið á ný.

Frye tvíburarnir með öðrum Assassin, Henry Greene.

Frye tvíburarnir með öðrum Assassin, Henry Greene.

Saga:

Leikurinn gerist í London árið 1868 þar sem að iðnbyltingin er að klára að umbreyta Englandi og heiminum á rótækan hátt. Sagan fer nýjar leiðir og skartar tvíburunum Jacob og Evie Frye sem eru meðlimir Assassins reglunnar.

London er undir hæl Templars og ráða þeir öllum hluta lífs borgaranna frá börnum í þrælkunarstörfum til þings og löggæslunnar. Yfir þessu öllu er Crawford Starrick sem er Grand Master Templar reglunnar. Hann stefnir á að herða tök sín á borginni, útrýma allri mótspyrnu og taka völdin í Bretlandi og nýta sér mátt þess í heiminum í að auka völd sín enn frekar.

Eins og við er að búast þá mætir Starrick mótspyrnu frá Frye tvíburunum og byrja þau að berjast gegn völdum hans í borginni og rekast á margar þekktar persónur frá þessum tíma eins og; Charles Dickens, Charles Darwin, Alexander Graham Bell, Karl Marx, Florence Nightingale, Duleep Singh (síðasta Maharajah Sikh veldisins), lögreglumanninum Frederick Abberline (sem rannsakaði Jack the Ripper morðin) og auðvitað Viktoríu Englandsdrottningu.

Viss verkefni eru spiluð sem Jackob sem er meiri bardaga týpa og síðan sem Evie sem er betri í laumuspili. Það var gaman að hlusta á samspil systkinana sem rifust og gerðu grín af hverju öðru til skiptis. Báðar persónurnar höfðu sína kosti en ég verð að segja að mér líkaði talsvert betur við hlutana sem ég spilaði Evie. Það var stór plús að geta skipt á milli þeirra þegar maður var að þvælast um London og gera hliðarverkefnin.

Sagan er seint byltingarkennd en nær samt að ná anda tímabilsins vel og þeim miklu breytingum sem iðnbyltingin hafði á líf fólks til hins betra og verra. Það er síðan tenging við framtíðarhluta leiksins þó ekki mikil sé og er sögð í gegnum nokkur myndbrot reglulega. Fyrir aðdáendur seríunnar þá er viss persóna þar á bakvið hlutina sem ég býst við að fái stærra hlutvert í næsta leik í seríunni.

Charles Dickens verður á vegi þínum og er hægt að aðstoða hann.

Charles Dickens verður á vegi þínum og er hægt að aðstoða hann.

Grafík og Hljóð:

Leikurinn keyrir á ný uppfærðri Anvil Next grafíkvél Ubisoft og hefur London borg sjaldan litið jafn vel út. Það er ótrúleg sú vinna sem hefur farið í að skapa London í lok 19. aldar. Ef að þið hafið einhvern tíman komið til borgarinnar þá er þarna mikið til að kannast við í leiknum.

Leikurinn er með dag og nætur tímakerfi og breytist veðrið einnig eftir þegar líður á tímann, það væri líklega varla London ef það væri ekki rigning og þoka þar á ferð. Það var jákvætt að sjá að Ubisoft reyndi ekki að fylla skjáinn með fullt af persónum eins og í Unity, í stað þess var reynt að skapa raunverulegri heim með betri persónur. Eins og í öllum opnum „sandkassa“ leikjum þá tekur maður eftir vissri endurtekningu í persónum og hlutum ef nógu lengi er skoðað. Þetta er viss annmörkum þessara leikja og við að búast.

Til samnburðar við leikinn í fyrra sem reyndist á köflum erfitt að spila útaf ýmsum göllum þá var mín ferð í gegnum Syndicate talsvert betri, ég lenti aðeins einu sinni í leiðinlegri villu sem varð til þess að ég þurfti að enduræsa leikinn til geta haldið áfram.

Tónlist og hljóðhönnun leiksins er mjög góð og var mjög gaman að hlusta á mikið af slangrinu sem fylgir oft vissum hlutum Bretlands.

Leikurinn er oft mjög fallegur og blóðugur.

Leikurinn er oft mjög fallegur og blóðugur.

Spilun:

Þið sem hafið spilað fyrri leiki þá ættuð þið að vera vel undirbúin fyrir hvað sé í boði í Syndicate. Það er þó gaman að sjá að Ubisoft hefur hlustað á vissa gagnrýni fyrri leikja og straumlínulagað vissa hluta leikins og dregið úr óþarfa rugli í leiknum.

Leikurinn inniheldur endurbætt bardaga- og laumukerfi sem virkar vel og stelur líklega besta hlutnum frá Batman leikjunum í formi línubyssu sem er hægt að notast til að ferðast á milli staða. Það er ótrúlegt hvað einn hlutur getur breytt spilun leiksins að mínu mati, það er mjög auðvelt að standa ofan á húsþaki og horfa yfir götuna á næstu byggingu og ýta á L1 og horfa á línu skjótast á milli sem er hægt að klifra eða renna sér eftir. Það gerir síðan mjög auðvelt að klifra upp byggingar og hefur talsverð áhrif á hvernig þú nálgast viss verkefni og bardaga leiksins.

Það er engin fjölspilun eða samvinnu co-op þetta árið og var það gáfulegt plan hjá þeim að sleppa því þetta árið. Co-op er reyndar eitthvað sem getur virkað í seríunni enn að mínu mati á ekki að koma niður á heildarmynd leiksins.

Það er svo mikið að gera í leiknum ef þú vilt að það lætur mann pínu fá valkvíða hvar á að byrja. Það eru kistur til að opna og fá peninga eða hluti til að uppfæra vopn og búnað, verkefni til að leysa fyrir þekktar persónur eins og rannsaka morðmál. Eitt af því sem systkynin gera til að veikja vald Templaranna á London er að ráðast gegn undirheima gengjunum sem Starrick stjórnar. Með að ráðast á starfsemi þeirra þá ná þau hægt og rólega völdum yfir borginni og setja sitt eigið gengi yfir svæðin.

Það er kerfi í leiknum til uppfæra persónuna sem þú spilar og hefur Evie og Jacob ólíka hæfileika og hafa þau sitt eigið hæfileika tré til að fylla út. Það er forvitnilegt líka að sjá hvernig bardagastíl þau hafa, Jackob berst með bognum Nepölskum hnífi, hnúajárnum á meðan Evie notar staf með sverði og síðan nota þau bæði skammbyssu. Hægt er að uppfæra síðan vopnin og fá betri og sérsníða sér að einhverju sinn eigin stíl.

Hægt er að ræna og keyra hestvögnum um borgina og gerast viss verkefni og hliðar verkefni tengd þeim, hægt er síðan að berjast ofan á þeim á meðan vagnarnir þeytast eftir götum Lundúnaborgar.

Sú breyting sem mér líkaði einna mest við í spilun leiksins er þegar þú ert að taka úr umferð hluta Templara forystuna þá bjóðast stundum vissir valkostir hvernig það er leyst. Það er t.d hægt að múta verði, ræna öðrum til að færa þig nærri skotmarkinu, notast við umhverfið, hluti eða staði til að kála skotmarkinu. Þetta er eitthvað sem mér hefur fundist vanta í leikina og eitthvað sem ætti að passa meira við launmorðingja sem ætti að reyna að nota skuggana til að ná takmarki sínu.

Línubyssan breytir spiluninni til hins betra.

Línubyssan breytir spiluninni til hins betra.

Ending og lokaorð:

Það hefur seint verið hægt að segja að Assassin‘s Creed leikirnir innihalda ekki nóg efni fyrir aurinn, það hefur nærri verið hægt að segja að þeir stundum troði of mikið af efni í leikina síðustu árin.

Þó að maður sé búin að eyða talsverðum tíma í að spila leikinn og klára söguna þá er enn nóg efni til að spila og fer leikurinn alveg í 30-50 tíma í spilun þegar er horft til alls þess sem er hægt að gera aukalega í borginni.

Eftir erfiða útgáfu Unity í fyrra þá var spurning hvað myndi gerast með næsta leik og síðan seríuna í heild sinni. Að gefa út tvo leiki í fyrra var pínu bilun og kom það niður á seríunni á marga vegu. Ubisoft hefur verið gagnrýnt talsvert fyrir þessa árlegu útgáfu af leikjunum og vilja mjög margir þar á meðal ég að þeir fari í 2 ára útgáfu frekar.

Syndicate er vel heppnaður leikur sem er gullfallegur að sjá og gaman að spila, hann minnir á eldri leiki og sýnir að það er vel hægt að einfalda vissa hluta án þess að það komi niður á heildar vörunni. Það verður þó að segja að Ubisoft er í pínu vanda með framtíðarhluta sögunnar eftir lok sögu Desmond Miles. Mig langar að sjá þá taka betur á þessum hluta og jafnvel láta einn leik gerast algerlega í þeim hluta sögunnar. Í sambandi við hvert er hægt að fara næst þá væri ég til að sjá leik sem gerist í Japan eftir svona 2 ár.

Einkunn: 9 af 10 Mögulegum

Framleiðandi: Ubisoft Quebec
Útgefandi: Ubisoft
Útgáfudagur: 23.10.2015
Útgáfa spiluð: PS4, einnig til á Xbox One og PC.

Heimasíða: http://assassinscreed.ubi.com/en-GB/games/assassins-creed-syndicate/index.aspx

Skrifað af: Bumbuliuz ©
Sveinn A Gunnarsson
Öll afritun á texta er stranglega bönnuð nema með leyfi höfundar.