Far Cry: Primal

3122690-l

 

Kynning:

Ubisoft kynnti óvænt í lok síðasta árs að það væri nýr Far Cry leikur á leiðinni, þar sem ekki var langt síðan að Far Cry 4 kom út (nóv 2014) þá bjuggust margir við að þetta yrði smærri leikur í anda Far Cry 3: Blood Dragon.

Í stað þess að gefa út smærri leik til að stytta fólki stundir þar til að Far Cry 5 verður kynntur, þá hefur Ubisoft komið með leik í stærri kantinum og með hærri verðmiða sem því fylgir. Það er auðvitað stóra spurningin hvort að leikurinn nái að standa undir þeim verðmiða eða ekki?

Far Cry: Primal kom út fyrir PlayStation 4, Xbox One og PC (í byrjun mars) og sleppir eldri kynslóð leikjavélanna í þetta skiptið, eitthvað sem Far Cry 4 gerði ekki.

Ull leiðtogi Udum ættflokksins er forvitnileg og sorgleg persóna

Saga:

Leikurinn færir fólk aftur í tímann þar sem lífið var bæði einfaldara og talsvert hættulegra. Sögusviðið er hinn skáldaði Oros dalur í Mið-Evrópu um 10.000 f.Kr þegar heimurinn var fullur af hættum og daglegri lífsbaráttu.

Leikmenn feta í fótspor manns að nafni Takkar af Wenja ættbálkinum, hann er strandaður í Orsos dalnum eftir að veiði sem hann tók þátt í endaði illa með tilkomu sverðtígurs.

Takkar þarf að beita veiðihæfileikum sínum ásamt getunni að temja hin ýmsu dýr til að hjálpa sér að finna aðra af Wenja ættbálkinum og berjast gegn tveimur öðrum ættbálkum sem vilja báðir leggja undir sig þennan frjóa dal.

Hinir ættbálkarnir sem Takkar þarf að kljást við eru mannæturnar í Udam og eldfólkið í Izila.

Það er oft stutt á milli rólegra kafla og þegar að allt fer til fjandans

Udam eru leifar eldri tíma og eru á norðursvæðum Orsos og nálægt rönd íssins sem varð eftir hop ísaldarinnar. Þeir eru leiddir af hinum stóra og grimma Ull. Udam er hægt og rólega að deyja út, útaf sjúkdómum og baráttunni við nýrri ættflokka sem eru þróaðri en Udam.

Izila er þróaðri ættbálkur í Suður hluta Orsos, þeir hafa lært að beisla eldinn og landbúnar og hneppa aðra ættbálka í ánauð til að reisa steinmusteri þeirra og fórna til sólguðanna. Batrari leiðir ættbálkinn og er talin vera sól gyðja þar sem hún fæddist við sólmyrkva. Hún hikar ekki við að drepa neinn sem hún telur ógna sér og hefur sett sér það takmark að ná völdum í Orsos dalnum.

Takkar þarf að byggja upp sinn eigin hóp af Wenja í Orsos með að byggja upp sitt eigið þorp og fá til sín bæði vini og óvini sem munu kenna honum að skapa ný vopn, að temja stærri og grimmari dýr og ná nægilega miklum styrk til að ná loks völdum í Orsos dalnum og skapa frið fyrir Wenja.

Hægt er að temja hin ýmsu dýr til að hjálpa sér

 

Grafík og Hljóð:

Leikurinn lítur virkilega vel út að mestu og er flott að sjá það umhverfi sem Ubisoft hefður náð að skapa í þeirra ímyndaða dal Orsos. Eins og við var að búast þá er hægt að fara um allt kortið án þess að verða var við neina hleðslu leiksins og hægt er að kanna túndrur norðursins og ís og fara í fenjasvæði suðursins eða bara kanna og veiða í skógunum þess á milli.

Sama grafíkvél (Dunia 2) keyrir þennan leik og Far Cry 3 og Far Cry 4 og hefur hún verið spiffuð upp til að ná að skapa þennan frumstæða heim. Á þeim um 30 tímum sem ég eyddi í leiknum þá hélst fps (rammahraðinn) virkilega þéttur í 30 fps og hökti ekkert.

Í þeim uppdópuðu andaferðum sem Takkar fer í gegnum sögu leiksins er gaman að sjá hvernig þeir leika sér með liti og umhverfið til að brydda aðeins til í leiknum.

Hljóð og raddsetning leiksins er vel gerð, það verða líklega einhverjir sem eru ekki sáttir við að það þurfi að treysta á texta á skjánum til að skilja hvað fólk sé að segja. Persónulega fannst mér það flott að heyra útgáfu Ubisoft sem byggir á proto-Indó Evrópska tungumálinu sem við tölum í dag. Það er munur á hvernig ættbálkarnir tala útaf hversu langt eða stutt þeir eru komnir á þróunarskalanum. Þrátt fyrir að skilja í raun ekkert sem er sagt þá hefur það ekki áhrif á upplifunina eða að tengjast persónum leiksins.

Leikurinn er á köflum virkilega fallegur að sjá

Spilun:

Dýr og menn þurfa að deila þessum heimi og er oft gaman að labba um skóginn og virða sér fyrir hóp úlfa sem eru að hlaupa á eftir dádýri, síðan kannski detta þau inná sverðtígur eða loðfíla sem breytir aðstæðunum.

Í stað vélbyssna eða sprengjuvarpna þá er í stað treyst á einfaldari og nánari vopn eins og hnífa, spjót og boga og örvar. Hvernig fólki mun líka þetta hefur líklega eitthvað að segja hvernig fólki líkar þessi leikkerfi. Ég hafði ávallt gaman að nota bogann í Far Cry 3 og 4 svo það var ekki erfitt að setja mig í fótspor Takkar og veiða dýrin í Orsos og nota vopn og eld til að berjast við þá óvini sem ég rakst á.

Ef að þið hafið spilað síðustu 2 Far Cry leiki þá ættuð þið að vera vel vön uppbyggingunni í spilun leiksins. Takkar nær yfirráðum yfir þorpum, bjargar fólki úr óvinahöndum, veiðir villidýr til að nota skinn og aðra hluta þeirra til að uppfæra vopn sín, hann ræðst á virki óvina til að ná völdum á svæði þeirra. Far Cry leikirnir hafa ávallt snúist um frelsi í spilun og hvernig er nálgast vissa hluti. Með að kalla til Uglu þá getur Takkar skoðað ákveðið svæði og merkt inn óvinina á kortið, hægt er að laumst um og drepa óvinina hljóðlaust án þess að nokkur verði var við hann. Einnig er hægt að kasta logandi spjóti inn í þétt grasið og kveikja eld sem breiðist út um allt og hræðir dýr og óvini og nýta sér ringulreiðina til að hlaupa inn og þurka óvinina út.

Fyrir þá sem vilja 100% þá er virkilega nóg að gera

Engin fjölspilun eða co-op er þetta árið og hafði Ubisoft sagt að þeir vildu ekki draga frá kjarna leiksins. Fjölspilun að mínu mati hefði verið algerlega tilgangslaus en það hefði geta verið kannski gaman að spila 2 manna co-op og reyna að veiða saman eitthvað af villidýrum Orsos kannski.

 

Ending og lokaorð:

Það tekur svona um 15-20+ tíma að klára sögu leiksins, fer eftir hvernig það er spilað í gegnum hann. Það er síðan kannski svona 10 tímar ofan á það til að klára allt það helsta og ná Platinum trophy í leiknum.

Vandinn sem fólk stendur helst fyrir þegar leikurinn er skoðaður er hvort að hann sé þess virði að kaupa á kannski um 13 þúsund krónur á PS4 eða að bíða þangað til að hann lækkar eitthvað í verði.

Ég sjálfur bjóst upprunalega við þegar ég heyrði af þessum leik við öðrum smærri hliðar leik í anda Far Cry 3: Blood Dragon og með lægri verðmiða fyrir vikið. Hvort þetta hefur átt að vera einhvern tíman slíkt og síðan stækkað er erfitt að segja til.

Saga leiksins er ekkert rosalega þétt eða löng og skilur ekki það mikið eftir sig, það hefði verið hægt að gera svo miklu meira fannst mér með þetta sögusvið og persónur. Að fjalla um baráttuna á milli eldri og nýrri kynstofna mannkynsins á árdögum hans bíður uppá marga möguleika að mínu mati. Leikurinn er fullur af litlum hliðarverkefnum sem hægt er að spila í gegn og tekur það meirihluta af spilunartíma leiksins. Þeir kaflar sem ég hafði mest gaman af var þegar ég var að kanna umhverfið eða setja mig í fótspor forfaðir míns og heyja erfiða lífsbaráttu og hvaðan mín næsta máltíð kæmi.

Sæti kisinn minn að næla sér í matinn

Hvað hlutur kostar hefur að mínu mati oft mikið að segja um hvernig þú horfir á hann og þegar horft er á Far Cry: Primal þá er klárt ef að hann væri á lægra verði væri miklu auðveldara að horfa framhjá vissum vanköntum hans og einhæfni í spilun og njóta upplifunninnar sem er í boði. En þegar við erum að horfa á leik sem kostar það sama og Far Cry 4, Dark Souls III o.fl. þá byrjar þetta að horfa aðeins öðruvísi við.

Það sem ég myndi segja ef að þið elskið þessa leiki og langar að sökkva ykkur í flottan heim og skjóta dýr og frummenn með örvum og spjótum þá er þetta leikur fyrir ykkur, fyrir hin sem eru enn að pæla þá er þetta kannski spurning um að bíða eftir aðeins lægra verði.

Einkunn: 7 af 10 Mögulegum

Framleiðandi: Ubisoft Montreal
Útgefandi:
 Ubisoft
Útgáfudagur: 23.02.2016
Útgáfa spiluð: PS4, einnig til á Xbox One og PC.

Heimasíða:  http://far-cry.ubisoft.com/primal/en-gb/home/

Skrifað af: Bumbuliuz ©
Sveinn A Gunnarsson
Öll afritun á texta er stranglega bönnuð nema með leyfi höfundar.