Steep

Íþróttaleikir eins og Steep eru ekki mjög algengir í dag frá því sem áður var. Áður fyrr fengum við leiki eins og Coolboarders, Amped, SSX seríuna, Shaun Palmer’s Pro Snowboarder, 1080 seríuna en þetta voru bara hluti þeirra leikja sem komu út síðustu árin fyrir hinar ýmsu vélar.

Ubisoft mætir þetta árið með metnaðarfulla leikinn Steep frá Ubisoft Annecy sem eru einmit staðsettir ekki langt frá frönsku Ölpunum. Svæðið er mjög vinsælt meðal ferðamanna og þeirra sem stunda hinar ýmsu íþróttir eins og skíði, snjóbretti, svifflug ásamt hinum ýmsu sumar íþróttum.

Það er ljóst frá því að maður byrjar að spila leikinn að framleiðandinn er vanur að fara um snævi þaktar brekkur fjallanna, hvernig snjórinn hagar sér þegar þú rennir þér eftir honum eða hvernig kögglar skjótast framhjá þér þegar þú skerð í beygjum er flott að sjá. Ég ólst upp við hliðina á fjalli og var mjög vinsælt hjá okkur systkinum að fara á skíði á veturnar og vera eins lengi og við gátum að renna okkur niður brekkurnar. Mér varð hugsað til þess tíma stundum þegar ég var að renna mér niður brekkurnar á skíðum eða snjóbretti í Steep. Það var gaman að sjá þegar þú ert labbandi í leiknum og ferð upp hæð hvernig persóna þína styður sig í brekkunni og klifrar með höndum og fótum eins og maður gerði oft.

Þessi nákvæmni skilar sér á mörgum stöðum í leiknum og er ljóst frá byrjun spilunar að áhrif leikja eins og Skate og Amped 1-2 eru til staðar, frekar enn t.d SSX Tricky og annara “arcade-y” leikja þar sem raunveruleikinn er ekki eins mikið til staðar. Ekki það þó að Steep fari ekki eitthvað frjálslega með suma hluti, enda myndi nær enginn lifa af mikið af þeim föllum og árekstrum sem maður lendir í leiknum. Það er þó alltaf nauðsyn á jafnvægi í raunveruleika og skemmtanagildi og Steep nær því almennt vel.

Kjarni leiksins er frelsi, til að fara nær hvert sem þú villt á þeim fjallstindum sem í boði eru, Alpa svæðið sem er í leiknum er þéttara en það sem er í raunveruleikanum og er það skiljanlegt. Það myndu fæstir vilja eyða löngum tíma að fara á milli staða til að geta rennt sér í smástund. Tindar eins og Matterhorn og Mount Blanc eru í leiknum og fara mikið af erfiðustu keppnum leiksins fram þar.

Það er eitthvað fyrir flesta uppá valkosti að ferðast í leiknum.

Í Steep er hægt að fara niður og stundum upp fjöllin á fjóra mismunandi vegu, skíði, snjóbretti, svifflug og vængbúningi. Sumar keppnir leyfa þér að velja á milli skíða eða snjóbrettis á meðan aðrar eru með vissar kröfur. Þú vinnur þér inn xp (árangur) í leiknum sem hækkar stig þitt og opnar fyrir ný og erfiðari svæði. Hvernig brögð þú gerir og oft hve nálægt hættu þú ferð hefur áhrif á hve mikið xp þú færð. Það er síðan einnig notaður sjónauki með því að halda inni L1 þegar þú ert stopp til að finna ný svæði sem opna fyrir fleiri keppnir.

Það er lítið um leiðbeiningar í leiknum eða kjarna til að leiða þig í gegnum leikinn, það hefði kannski verið gáfulegt að vera með eitthvað mót sem hefði geta leitt þig áfram og sýnt þér hvernig væri best væri að tækla fjöllin. Það sem pirraði mig þegar ég var kominn langt inn í leikinn og búin að opna fyrir nær öll svæðin var að það var engin góð leið til þess að sjá hvað ég var búinn með og hvað ekki.  Að þurfa að skima í gegnum kort leiksins og sjá hverju ég hafði lokið og hverju ekki tók óþarflega mikinn tíma og hefði verið hægt að leysa frekar auðveldlega.

Það eru fjallasögur sem er hægt að klára sem koma með smá karakter í leikinn, þar er viðeigandi fjalli gefin persóna og rödd og talar við þig á meðan þú rennir þér niður hlíðar þess og gerir viss verkefni. Þetta er stundum fyndið og önnur skipti pínu kjánalegt miðað við restina af leiknum.

Það getur örvað hjatsláttinn að svífa niður fjallið.

Trix kerfi leiksins er mjög einfalt og á sama tíma oft einstaklega ergjandi. Það er einfalt og ekkert ýkt í anda t.d SSX leikjanna en á sama tíma á það til að virka ekki nægilega vel eða segja manni til þegar maður er að gera eitthvað rangt. Eftir smá tíma við að framkvæma brögð leiksins ertu í raun búinn að sjá allt þar sem er í boði þarna. Það er aldrei opnað fyrir neitt nýtt í þeirri deild, þú batnar bara með æfingunni og stundum heppni. Eitt af því sem leikurinn gerir einstaklega vel og hjálpar mikið til í erfiðari keppnum, er að geta endurræst keppninni með að því halda inni þrýhyrningstakkanum og nokkrum sek síðar ertu komin aftur uppí byrjun brautarinnar og getur meira að segja séð leiðina sem þú fórst á undan niður í smástund. Það koma gríðalega strembnir og erfiðir kaflar þegar þú ert komin í síðari tinda leiksins og þá munar mikið um að geta byrjað kepnnina sem þú munt endurtaka nokkur tug skipta kannski, á andartaki.

Svifflugið er líklega sísta sportið, en er þó þægilega afslappandi.

Eitt af því sem framleiðendur Steep lögðu mikið í að kynna í sambandi við leikinn fyrir útgáfuna var að þú ert ávallt spilandi með öðrum og getur rekist á aðra leikmenn hvenær sem er, sérð þá oft renna sér á sama tíma og þú ert að keppa í ákveðni braut. Þetta gefur fjöllunum meira líf að sjá fólk rennandi og svífandi um og það er auðvelt að halda inni kassanum á fjarstýringunni til að byrja að spila með þeim og deila brautum. Vandamálið er þó að þetta er eingöngu netleikur og þegar netþjónar Ubisoft liggja niðri þá getur þú ekki spilað. Það virkar að mínu mati betur í leikjum eins og The Division þar sem þetta er stór kjarni leiksins en í Steep gæti þetta vel verið aukahlutur við leikinn og það myndi ekkert skemma fyrir og geta spilað hvort sem netspilun sé á eða af.

Auðvellt er að deila með öðrum leiðunum þínum niður fjöllin ásamt að búa til myndbrot og er þetta klárlega eitthvað sem framleiðendur leiksins eru að vonast eftir að nái vinsældum á Youtube.

Útlitslega er leikurinn mjög flottur og oft koma kaflar þar sem maður er að renna sér niður hlíðina þar sem vert er að stoppa til þess að njóta fallega útsýnisins og sjá snjóinn svífa yfir landslaginu. Síðan má finna jökla, byggingar o.fl. á víð og dreif um fjöllin sem gefa því líf. Að svífa niður bratt fjall í vængbúningnum og forðast að verða klessa í klettunum getur oft fengið blóðið til að renna hratt og oft gríðalega gaman. Það skortir ekki plöggin fyrir fyrirtæki eins og Red Bull og GoPro sem eru á víð og dreif um leikinn og passar það líklega fyrir þann lífsstíl sem leikurinn er að reyna að vísa í.

Leikurinn á stundum skrítna kafla þó ekki oft.

Það getur stundum skemmt fyrir hversu einfalt trix kerfi leiksins og ekki nægilega vel útfært. Þetta getur á köflum dregið aðeins úr spilun leiksins og hefði mátt gera aðeins betur. Stundum rennur maður yfir klettabelti og ekkert slæmt gerist og önnur skipti rétt kemstu í snertingu við eitthvað og maður er pönnukaka í fjallshlíðinni. Það er “G-force” mælikerfi í leiknum til að sýna manni álagið á líkamann en það er illa útskýrt og oft ekkert vit í því.

Það er hægt að sérsníða sér persónu útfrá nokkrum sem eru í leiknum en þú ert þó bundinn við föt og útbúnað en getur ekkert átt við karl eða kvenpersónur leiksins að öðru leiti sem er svekkjandi. Það er fullt að dóti til að kaupa til að setja á persónuna en það er í raun bara glingur. Svo má kaupa hluti fyrir alvöru peninga sem er kjánalegt að sjá í leik sem kostar fullt verð út úr búð.

Það er nóg af hlutum til að skemmta sér í Steep, þetta er fallegur leikur sem gefur þér gríðalega mikið frelsi að fara um fjöllin á þann veg sem þér hentar. Vandinn er þó að vissar grunnstoðir leiksins eins og trix og “physics” hlutar leiksins eru oft misvísandi og rugla mann þegar leikurinn ákveður að gera eitthvað kjánalegt.

Þrátt fyrir ýmislegt sem mætti fara betur þá er oft mjög gaman að fara um heim Steep og skapa sér sína eigin skemmtun. Það verður forvitnilegt að sjá hvort að Ubisoft byggir á þessum grunni og mætir enn sterkari með næsta leik.

Einkun: 7  af 10 Mögulegum 

Framleiðandi: Ubisoft Annecy
Útgefandi: Ubisoft
Útgáfudagur: 02.12.2016
Útgáfa spiluð: PS4, einnig til á PC og Xbox One
Heimasíða: http://steep.ubisoft.com/game/en-gb/home

Skrifað af: Bumbuliuz ©
Sveinn A Gunnarsson
Öll afritun á texta er stranglega bönnuð nema með leyfi höfundar.